Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
   sun 21. apríl 2024 13:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Tvær af þeim bestu mætast í fyrsta leik - „Hún er rosalega góð í fótbolta"
Amanda Andradóttir.
Amanda Andradóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sandra María Jessen.
Sandra María Jessen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valskonum er spáð Íslandsmeistaratitlinum.
Valskonum er spáð Íslandsmeistaratitlinum.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Þór/KA er spáð þriðja sæti.
Þór/KA er spáð þriðja sæti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Opnunarleikur Bestu deildar kvenna fer fram í dag og er það vægast sagt áhugaverður leikur. Valur, sem spáð er Íslandsmeistaratitlinum, tekur á móti Þór/KA, sem er spáð þriðja sæti deildarinnar.

Í leiknum í dag eru tveir af bestu leikmönnum deildarinnar að mætast; Amanda Andradóttir úr Val og Sandra María Jessen úr Þór/KA. Þær eru báðar hluti af íslenska landsliðinu.

Leikmenn í deildinni hafa mikla trú á Amöndu. Nýverið var haldinn kynningarfundur fyrir deildina og voru þar opinberaðar niðurstöður úr leikmannakönnun sem var gerð fyrir stuttu síðan.

Þar var spurt að því hver yrði besti leikmaður deildarinnar og fékk Amanda flest atkvæði þar. Sandra María var í þriðja sæti í kjörinu en í öðru sæti var Katie Cousins, sem er einnig leikmaður Vals.

Amanda, sem kom af krafti inn í deildina í fyrra, var þá kosin líklegust til að fara fyrst út í atvinnumennsku, hún var líka talin líklegust til að vera markahæst og var hún í efsta sæti yfir þann leikmann sem aðrir leikmenn í deildinni myndu vilja hafa í sínu liði.

„Hún er rosalega góð í fótbolta, frábær fótboltakona," sagði Fanndís Friðriksdóttir, leikmaður Vals, um Amöndu í Niðurtalningunni hér á Fótbolta.net á dögunum.

„Hún getur töfrað upp eitthvað úr engu eins og við sáum í síðasta leik gegn Víkingi. Hún er alin upp með bolta við lappirnar og er örugglega búin að vera í garði með pabba sínum (Andra Sigþórssyni) og frænda (Kolbeini Sigþórssyni) ansi lengi. Hún er með mikla fótboltagreind," sagði Adda Baldursdóttir, aðstoðarþjálfari Vals í þættinum. „Hún hefur alla burði til að standast undir þeim væntingum sem hafa verið settar á hana."

Mikið ánægjuefni fyrir Þór/KA að Sandra María endursamdi
Einar stærstu fréttir vetrarins í íslenska boltanum voru þær að Sandra María endursamdi við Þór/KA. Hún var eftirsótt af öðrum félögum hér heima og var einnig áhugi á henni erlendis en hún valdi að vera áfram í Þór/KA þar sem hún er algjör lykilmaður.

„Ég held að þetta hafi verið rétt ákvörðun fyrir mig. Mér líður rosalega vel fyrir norðan og ég hef trú á því sem er að gerast þar. Það er rosalega góður efniviður. Mér finnst Þór/KA hafa hjálpað mér rosalega mikið að koma til baka eftir að ég átti Ellu, dóttur mína, og ég hef trú á því að ég geti haldið áfram að bæta fyrir norðan. Það er ástæða fyrir því að maður er þarna, ég tel mig geta orðið betri leikmaður þarna og ég er ekki hætt að vilja bæta mig," segir Sandra María.

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, var skiljanlega mjög ánægður þegar Sandra setti undirskrift sína á blað.

„Þó að við séum ekki byrjuð að spila þetta tímabil, þá eru ekki margir leikmenn sem gera tilkall í að vera betri en hún í þessari deild. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli út frá gæðum og hæfileikum, en hún færir líka liðinu og hópnum mjög mikið. Það er mjög mikið sem flestir sjá ekki. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem lið að þetta hafi gengið upp. Við erum gríðarlega ánægð," sagði Jóhann Kristinn.

Leikurinn í dag hefst 15:00 en hægt er að sjá alla leiktímana í fyrstu umferðinni hér fyrir neðan.

sunnudagur 21. apríl
15:00 Valur-Þór/KA (N1-völlurinn Hlíðarenda)

mánudagur 22. apríl
18:00 Breiðablik-Keflavík (Kópavogsvöllur)
18:00 Tindastóll-FH (Sauðárkróksvöllur)
18:00 Stjarnan-Víkingur R. (Samsungvöllurinn)
19:15 Fylkir-Þróttur R. (Würth völlurinn)
Niðurtalningin - Dreymir um að endurtaka leikinn frá 2012
Niðurtalningin - Endar titillinn enn eitt árið á Hlíðarenda?
Athugasemdir
banner
banner