Liverpool og Man Utd á eftir Simons - Sancho áfram hjá Chelsea - Real Madrid hefur áhuga á Rodri
   mán 21. apríl 2025 12:30
Brynjar Ingi Erluson
Neville um Trent: Hann verður að svara þessu næstu helgi
Trent Alexander-Arnold
Trent Alexander-Arnold
Mynd: EPA
Gary Neville, sparkspekingur Sky Sports, segir að Trent Alexander-Arnold verði að greina frá ákvörðun sinni um það hvort hann ætli að vera áfram hjá Liverpool eða fara til Real Madrid þegar Liverpool tryggir Englandsmeistaratitilinn.

Framtíð Trent er áfram í óvissu. Miðlar á Englandi og Spáni hafa fullyrt að hann sé á förum frá Liverpool og muni ganga í raðir Real Madrid á frjálsri sölu, en leikmaðurinn hefur sjálfur verið þögull sem gröfin.

Englendingurinn skoraði sigurmark Liverpool gegn Leicester í gær og ræddi síðan við Sky eftir leik. Þar sagðist hann ekki hafa áhuga á því að ræða framtíð sína í fjölmiðlum, en Neville segir að það fari að koma að þeim tímapunkti þar sem hann geti ekki frestað þessu lengur.

„Hann hefur ekki svarað spurningum um samningamál sín og fór í viðtal eftir leikinn gegn Leicester þar sem hann sagðist ekki vilja tala aftur um þetta þannig hann heldur bara áfram að fresta þessu,“ sagði Neville í hlaðvarpsþætti sínum.

„Það mun koma tímapunktur, líklega í kringum næsta sunnudag, þar sem hann getur ekki falið sig lengur því þá er tímabili Liverpool lokið. Þeir munu vinna deildina og þá er ekkert annað til að ræða en hvort hann verði áfram hjá félaginu eða ekki. Hann mun þurfa að segja já eða nei.“

„Hann mun þurfa að undirbúa sig undir það í þessari viku eða það hefði ég haldið. Því ef þú heldur áfram að fresta því viku eftir viku þá mun þetta skilja eftir óbragð í munni. Það er langbest að leggja spilin á borðið og segja „Já ég verð áfram“ eða „Nei, ég verð ekki áfram“.“
sagði Neville.

Liverpool getur orðið meistari í 20. sinn næstu helgi er það fær Tottenham í heimsókn á Anfield. Þá ættu mál Trent að skýrast betur, en stuðningsmenn Liverpool eru ekki vongóðir um að hann haldi kyrru fyrir.
Athugasemdir
banner
banner
banner