Toney og David á blaði Man Utd - Bayern vill varnarmann Liverpool - Chelsea endurvekur áhuga á Duran - Luiz nálgast Juventus
   þri 21. maí 2024 19:16
Brynjar Ingi Erluson
Mögnuðum þjálfaraferli Claudio Ranieri lýkur á fimmtudag (Staðfest)
Claudio Ranieri
Claudio Ranieri
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Ítalski þjálfarinn Claudio Ranieri hættir í þjálfun eftir síðasta deildarleik Cagliari á fimmtudag en þetta kemur fram í yfirlýsingu á heimasíðu félagsins.

Ranieri hóf þjálfun árið 1986 eftir að hafa átt nokkuð farsælan ferill sem fótboltamaður.

Sem fótboltamaður lék hann fyrir félög á borð við Roma, Catanzaro, Catania og Palermo, en hans fyrsta þjálfarastarf var hjá áhugamannaliðinu Vigor Lamezia.

Það var hins vegar hjá Cagliari sem hann skapaði nafn sitt í þjálfun en hann tók við liðinu árið 1988 og stýrði því úr C-deildinni og upp í Seríu A á tveimur árum.

Ranieri stýrði Fiorentina upp úr B-deildinni tímabilið 1993-1994 og vann ítalska bikarinn tveimur árum síðar.

Þaðan hélt hann til Spánar til að þjálfa Valencia og síðar Atlético Madríd, en hjá Valencia vann hann Inter Toto-keppnina og spænska bikarinn.

Áhugamenn um enskan fótbolta kynntust honum betur árið 2000 er hann tók við Chelsea. Þar þjálfaði hann meðal annars Eið Smára Guðjohnsen, á hans bestu árum hjá enska félaginu. Eiður skoraði 40 deildarmörk undir stjórn Ranieri.

Ranieri var látinn fara frá Chelsea sumarið 2004 og hélt hann á mikið flakk. Hann stýrði Valencia, Parma, Juventus, Roma, Inter, Mónakó og gríska landsliðinu áður en hann snéri aftur í enska boltann.

Það var sumarið 2015 sem hann tók við Leicester City. Árið á undan hafði liðið hafnaði í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, en Ranieri átti eftir að gera nokkuð ótrúlegt og óvænt sem enginn var að búast við.

Leicester varð deildarmeistari á fyrsta tímabili hans, heilum tíu stigum á undan Arsenal. Liðið tapaði aðeins þremur deildarleikjum í einu mesta öskubuskuævintýri í sögu enska boltans.

Hann var látinn fara frá Leicester í febrúar árið eftir en liðið var þá einu stigi fyrir ofan fallsæti. Brottför N'golo Kanté og aukið leikjaálag reyndist of stór biti fyrir Leicester, en hann kvaddi samt félagið sem goðsögn.

Eftir dvölina þar stýrði hann Nantes, Fulham, Roma, Sampdoria og Watford áður en hann snéri aftur á staðinn sem kom honum á kortið; Cagliari.

Ranieri fór með Cagliari upp í Seríu A á fyrsta tímabili sínu og um helgina tókst honum að tryggja áframhaldandi veru liðsins í deildinni.

Í dag staðfesti Cagliari að Ranieri hætti með liðið eftir þetta tímabil og verður þetta hans síðasta þjálfarastarf á ferlinum en hann hefur ákveðið að setjast í helgan stein. Síðasti leikur hans verður gegn Fiorentina á fimmtudag.

Magnaður ferill að baki hjá Ranieri sem fagnar 73 ára afmæli sínu síðar á þessu ári.


Athugasemdir
banner
banner