Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   þri 21. desember 2021 18:10
Ívan Guðjón Baldursson
Klopp ekki refsað eftir jafnteflið
Mynd: EPA
„Ég á ekki í vandræðum með dómara, bara þig," á Jürgen Klopp þjálfari Liverpool að hafa sagt við Paul Tierney dómara eftir 2-2 jafntefli gegn Tottenham um helgina.

Leikurinn var gríðarlega skemmtilegur þar sem mikið var um færi og voru menn ekki sáttir með dómgæsluna þar sem Tierney virtist ekki tilbúinn til að dæma leik af þessari stærðargráðu.

Klopp gagnrýndi Tierney dómara að leikslokum og hefur enska knattspyrnusambandið ákveðið að aðhafast ekkert í málinu.

Klopp fékk gult spjald frá Tierney dómara þegar hann brást illa við ljótri tæklingu Harry Kane á Andy Robertson. Leikmennirnir voru á ferð og fór Kane með takkana á undan sér í tæklinguna en slapp með gult spjald þegar hann átti líklegast að fá beint rautt. Robertson var heppinn að fótbrotna ekki.

Robertson fékk sjálfur beint rautt spjald í seinni hálfleik eftir að hafa sparkað harkalega í Emerson Royal í furðulegri tilraun til að þruma knettinum í innkast.

„Ég skil að Robbo hafi fengið rautt spjald, þetta var ekki það gáfulegasta sem hann hefur gert á ferlinum. En brotið hjá Harry verðskuldaði klárlega rautt spjald, það er engin spurning," sagði Klopp meðal annars að leikslokum og gagnrýndi svo VAR herbergið.

„VAR skarst í leikinn til að gefa Robbo rautt spjald. Hvar var VAR herbergið í fyrri hálfleik?"
Athugasemdir
banner
banner