Unai Emery þjálfari Aston Villa var mjög ánægður eftir sigur gegn Manchester United í eina leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.
Morgan Rogers var hetjan þar sem hann skoraði bæði mörk Villa í 2-1 sigri. Fyrra markið kom eftir magnað einstaklingsframtak.
„Ég er mjög ánægður og ég verð að þakka stuðningsmönnum fyrir útaf því að þeir eiga svo stóran þátt í þessari velgengni. Þeir hjálpuðu okkur mjög mikið í dag, þeir gáfu okkur orkuna sem við þurftum til að sigra. Villa Park er virkið okkar," sagði Emery að leikslokum.
„Stundum getum við ekki stjórnað leikjum og þurfum að verjast og þá er mikilvægt að vera duglegir og harðir af sér. Við vörðumst vel og getum verið stoltir af því að hafa sigrað í dag. Þetta var samt alls ekki fullkomin frammistaða og það er margt sem við megum bæta við okkar leik.
„Þetta var mjög erfiður sigur en virkilega frábær fyrir okkur. Við sýndum að við höfum ýmislegt til taks í vopnabúrinu, við erum með leikmenn sem geta skipt sköpum með einstaklingsgæðum sínum og leikmannahópurinn er með sterkt hugarfar. Strákarnir sýndu það í dag."
Emery hrósaði Morgan Rogers í hástert en segir að öll einbeitingin fari í næsta leik gegn Chelsea. Liðin mætast í toppbaráttunni þar sem Aston Villa er í þriðja sæti með 36 stig, þremur stigum á eftir toppliði Arsenal.
„Okkur líður mjög vel þessa stundina og strákarnir eru að tengja vel saman. Hugarfarið er mjög mikilvægt og stemningin í hópnum sömuleiðis. Ef við viljum halda áfram að spila svona vel þá verða leikmenn að halda áfram að leggja sig alla fram. Núna fáum við smá hvíld og frítíma með fjölskyldunni en við verðum líka að vera með hugann við næsta leik gegn Chelsea."
Athugasemdir




