Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   mið 22. janúar 2025 15:50
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Arnar í stúkunni á Anfield - „Kominn lengra en ég hélt"
Icelandair
Hákon í leiknum í gær.
Hákon í leiknum í gær.
Mynd: Getty Images
Arnar Gunnlaugsson var ráðinn þjálfari karlalandsliðsins í síðustu viku.
Arnar Gunnlaugsson var ráðinn þjálfari karlalandsliðsins í síðustu viku.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Skoraði í síðustu tveimur leikjum fyrir leikinn í gær og átti stóran þátt í marki Lille í leiknum.
Skoraði í síðustu tveimur leikjum fyrir leikinn í gær og átti stóran þátt í marki Lille í leiknum.
Mynd: EPA
Arnór er að snúa til baka eftir meiðsli.
Arnór er að snúa til baka eftir meiðsli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Benoný var keyptur til Stockport eftir að hafa orðið markakóngur í Bestu deildinni.
Benoný var keyptur til Stockport eftir að hafa orðið markakóngur í Bestu deildinni.
Mynd: Stockport County FC
Hákon Arnar Haraldsson átti góðan leik með liði sínu Lille sem mætti Liverpool á Anfield í gærkvöldi. Liverpool var fyrir leikinn með fullt hús stiga í Meistaradeildinni og vann sinn sjöunda leik eftir hörkurimmu við franska liðið.

Hákon kom að marki Lille í leiknum en hann átti tilraun sem fór í varnarmann og markamaskínan Jonathan David fylgdi vel á eftir. Markið kom í stöðunni 1-0 fyrir Liverpool og var lið Lille orðið manni færra á þeim tímapunkti.

Í stúkunni á Anfield var m.a. nýr landsliðsþjálfari Íslands, Arnar Gunnlaugsson. Arnar ræddi við Fótbolta.net um upplifun gærkvöldsins.

„Upplifunin var mjög góð, auðvitað frábær völlur og sterkur leikur hjá Hákoni. Hann var taktískt agaður og var með mörg smáatriði á hreinu. Það var mjög gaman að sjá hann vera kominn á svona hátt 'level'," segir Arnar.

„Það er frábært að sjá leiki úr stúkunni, þá sérðu ýmis smáatriði. Hann er kominn lengra en ég hélt í ákveðnum hlutum eins og varnarleik, eitthvað sem maður tekur kannski ekki eftir þegar maður horfir í sjónvarpi. Hausinn á honum var í góðum fókus allar 90 mínúturnar. Þetta var erfiður leikur, ég hef spilað á þessum velli sjálfur og veit hversu erfitt er að mæta þarna með tryllta stuðningsmenn á bakvið þig. Það getur verið yfirþyrmandi andrúmsloft. En Hákon var einhvern veginn allan tímann inni í leiknum og þetta var mjög áhrifamikil frammistaða hjá honum."

Orðinn einn af lykilmönnunum
Hákon spilaði allar mínútur leiksins þó að Lille hafi misst mann af velli í leiknum.

„Hann er klárlega orðinn einn af lykilmönnunum. Hann lendir í meiðslum í vetur, virkar á mann sem jafnlyndur strákur á og er ekkert að æsa sig alltof mikið. Hann tók endurheimtina á góðum tíma og greinilega vel einbeittur. Hann kom svo til baka og hefur spilað virkilega vel, er kominn með nokkur mörk í síðustu leikjum. Það var kannski það sem vantaði í leikinn hans, að koma með mörk og stoðsendingar, og það er það sem hann er byrjaður að koma með núna. Maður sá líka í gær að hann fékk hálffæri í leiknum, er að koma sér í góðar stöður."

Sást hversu ógnarsterkt lið Liverpool er
Var eitthvað annað sem þú tókst út úr leiknum sem áhorfandi?

„Maður gerir sér bara grein fyrir því hversu ógnarsterkt lið Liverpool er. Maður hafði það á tilfinningunni að þeir ættu aukagír inni þó að þeir hefðu pressað Lille nokkuð stíft og herjuðu vel á þá. Mér fannst Lille komast mjög vel frá leiknum, voru taktískt sterkir og voru þannig séð aldrei út úr leiknum, héngu alltaf inni í leiknum og áttu möguleika á jafnteflinu. Liverpool er ógnarsterkt og gat sett sterka leikmenn inn á og það var auðvitað slæmt fyrir Lille að missa mann af velli. Lille leit nokkuð vel út og það sýnir á hvaða getustigi franska deildin er. Það var mjög ánægjulegt að sjá bæði lið með berum augum og sjá Hákon spila í gær."

Hitti Benoný og Arnór
Arnar er ánægður með ferðina út en hann gat einnig hitt Benoný Breka Andrésson (Stockport County) og Arnór Sigurðsson (Blackburn Rovers) sem fóru sömuleiðis á leikinn í gærkvöldi.

„Benoný er leikmaður sem allir á Íslandi þekkja og verður vonandi mjög öflugur fyrir okkur í framtíðinni. Það er gaman fyrir hann að koma á Anfield og sjá hvernig þetta virkar á elítustigi."

„Arnór er hægt og rólega að koma til baka, hann er byrjaður að æfa sjálfur og það styttist í að hann byrji að æfa með liðinu. Það er janúar núna og Blackburn ennþá í góðum séns að komast í umspilssæti, þannig það er góður möguleiki fyrir hann að ná að enda tímabilið mjög vel. Þessir strákar virka flottir á mig, þeir virka vel einbeittir."


Ætlar að fylgjast vel með strákunum og veita þeim aðhald
Hvað tekur við næst hjá landsliðsþjálfaranum?

„Það er að koma að undirbúningi fyrir ferðina út í Kósovóleikina. Það er margt að gera, ég ætla fylgjast vel með strákunum og veita þeim aðhald. Á næstu vikum ætla ég að heyra aðeins í leikmönnum og tékka aðeins á þeim. Ég vil vera vel virkur, það eru æfingaleikir hérna heima, mót að byrja og mjög spennandi. Ég hlakka til að koma mér aðeins betur inn í þetta en fyrstu dagarnir hafa verið mjög ánægjulegir," segir Arnar.
Athugasemdir
banner