Pochettino á radar Man Utd og Bayern - McKenna orðaður við Chelsea - Slot við Kökcu til Liverpool
banner
   mán 22. apríl 2024 16:11
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Ég hugsa örugglega um þennan leik svona daglega"
Blikar vilja gera betur með nýjum þjálfara í sumar
Marki fagnað í bikarúrslitaleiknum en Breiðablik tapaði þar óvænt gegn Víkingi.
Marki fagnað í bikarúrslitaleiknum en Breiðablik tapaði þar óvænt gegn Víkingi.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Birta Georgsdóttir í bikarúrslitaleiknum
Birta Georgsdóttir í bikarúrslitaleiknum
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Birta og Ásta Eir Árnadóttir fóru yfir síðasta tímabili og komandi sumar í Niðurtalningunni.
Birta og Ásta Eir Árnadóttir fóru yfir síðasta tímabili og komandi sumar í Niðurtalningunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nik Chamberlain tók við Breiðabliki í vetur eftir að hafa stýrt Þrótturum í mörg ár.
Nik Chamberlain tók við Breiðabliki í vetur eftir að hafa stýrt Þrótturum í mörg ár.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Síðasta tímabil var erfitt fyrir Breiðablik, þó svo að liðið hafi endað í öðru sæti Bestu deildarinnar. Það voru vonbrigði að ná ekki titlinum af Valskonum. Það voru líka mikil vonbrigði að tapa í bikarúrslitaleiknum gegn Víkingi úr Lengjudeildinni.

Eftir bikarúrslitaleikinn erfiða, þá gekk mjög illa og liðið var næstum því búið að missa annað sætið frá sér, en það tókst að ná því og þess vegna verða Blikar í Meistaradeildinni í sumar.

„Við vorum fegnar og ánægðar að hafa náð að landa öðru sætinu," sagði Birta Georgsdóttir. „Eftir að hafa misst titilinn frá okkur, bikarúrslitin, þjálfaraskipti og það gekk ýmislegt á. Að ná að klára þetta á góðum nótum var mjög gott fyrir alla."

Bikarúrslitaleikurinn sat mikið í liðinu.

„Ég hugsa örugglega um þennan leik svona daglega. Hann situr mjög mikið í mér, það er hræðilegt," sagði Birta sem skoraði mark Breiðabliks í þessum eftirminnilega leik gegn Víkingum á Laugardalsvelli.

„Hann sat rosalega lengi í öllum hópnum og bara félaginu öllu. Svona er þetta bara. Það er komið nýtt ár núna," sagði Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði liðsins, en hún var meidd og gat því ekki spilað í leiknum.

Víkingsliðið kom gríðarlega vel undirbúið inn í leikinn og spilaði frábærlega.

„Upplifunin mín var sú að þær (Víkingar) voru með allt undir kontról einhvern veginn. Ég held að John (Andrews) hafi undirbúið þær gríðarlega vel og hann eigi stóran þátt í þessu. Maður heyrði frá Víkingsstelpunum að það hefðu verið einstaklingsfundir um þennan og þennan leikmann. Þær voru drullugóðar," sagði Birta.

„Það er ekki hægt að taka neitt af Víkingi. Þær nálguðust þennan leik fáránlega vel en á sama tíma gerðum við það kannski ekki. Ég var í stúkunni og mér leið frekar illa. Þetta var erfitt og ég fann það með stelpunum að við værum ekki að tengja. Svo kemur mark og annað mark," segir Ásta en þær töluðu um það í þættinum að þegar Víkingar hafi skorað snemma, þá hafi það skapað stress.

„Við lærum af þessu og það er bara upp og áfram," sagði Ásta jafnframt.

Týpan sem við þurftum
Blikar hefja leik í Bestu deildinni í kvöld með heimaleik gegn Keflavík en liðinu er spáð öðru sæti í spá Fótbolta.net fyrir mótið. Liðið stefnir hærra en það, en Nik Chamberlain tók við liði Blika í vetur eftir að hafa þjálfað lengi Þrótt. Hann kemur inn með nýjar áherslur og verður spennandi að sjá hvernig það fer.

„Ég held að hópurinn sé ótrúlega sterkur í ár og mín tilfinning er sú að við höfum bætt við okkur mjög góðum leikmönnum," sagði Birta.

„Nik er mjög skýr með það hvað hann vill gera. Hann og Edda (Garðarsdóttir) eru gott teymi og vinna mjög vel saman. Þau eru mjög ólík. Það er fullt af nýjum hlutum sem við erum að gera og læra. Hann er mjög góður þjálfari og er með skýra sýn á hvað hann vill gera," segir Ásta Eir.

Nik er með kerfi sem hann hefur mótað síðustu ár og kemur hann með það inn í Breiðablik: Tígulmiðjan.

„Þetta er kerfi sem hann er greinilega hrifinn af. Ég held að það sé gott fyrir okkur að prófa eitthvað nýtt. Breiðablik hefur örugglega spilað sama kerfið í tíu ár eða eitthvað. Ég held að það sé fínt að læra eitthvað nýtt," segir Ásta og bætti við:

„Ég held að hann sé týpan sem við þurftum. Hann segir bara hvernig hlutirnir eru, en er á sama tíma mjög sanngjarn. Þegar hann er ósáttur með eitthvað þá er það rétt og hægt að taka því. Á sama tíma er hann góður þegar við erum að gera vel. Ég fékk góða tilfinningu þegar hann kom."

mánudagur 22. apríl
17:00 Tindastóll-FH (Sauðárkróksvöllur)
18:00 Breiðablik-Keflavík (Kópavogsvöllur)
18:00 Stjarnan-Víkingur R. (Samsungvöllurinn)
19:15 Fylkir-Þróttur R. (Würth völlurinn)

Hægt er að hlusta á Niðurtalninguna í held sinni hér fyrir neðan þar sem Birta og Ásta fóru yfir síðasta sumar og tímabilið sem er að byrja.
Niðurtalningin - Silfur er alls ekki nóg í Kópavoginum
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner