lau 20.apr 2024 19:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
Spá Fótbolta.net fyrir Bestu kvenna: 2. sæti
Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að Breiðablik muni enda í öðru sæti Bestu deildar kvenna í sumar. Álitsgjafar spá í deildina en þeir röðuðu liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær tíu stig, annað sæti níu og svo koll af kolli niður í tíunda sæti sem gefur eitt stig. Breiðablik endaði í öðru sæti í fyrra og því er spáð að liðið lendi aftur þar í ár.
Birta Georgsdóttir hefur verið að raða inn mörkum á undirbúningstímabilinu.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1. ?
2. Breiðablik, 89 stig
3. Þór/KA, 69 stig
4. FH, 64 stig
5. Stjarnan, 62 stig
6. Þróttur R., 60 stig
7. Víkingur R., 45 stig
8. Tindastóll, 25 stig
9. Fylkir, 22 stig
10. Keflavík, 14 stig
Um liðið: Síðasta sumar var mjög athyglisvert hjá Blikunum og það gekk mikið á. Liðið gekk í gegnum þjálfaraskipti á miðju sumri eftir að hafa tapað bikarúrslitaleiknum gegn Víkingi úr 1. deild. Eftir bikarúrslitin gekk mjög illa í deildinni og það stóð tæpt undir lokin að liðið myndi náð öðru sæti deildarinnar, en það tókst á endanum. Það var samt sem áður ekki mikil ánægja með sumarið hjá Breiðabliki og leikmenn liðsins vilja eflaust bæta upp fyrir það sem fór úrskeiðis á síðasta ári.
Þjálfarinn: Nik Chamberlain tók við liði Blika í vetur. Það verður skrítið að sjá hann í öðru liði þar sem hann hafði verið hjá Þrótti frá 2016 og náð virkilega flottum árangri. Hann kom liðinu upp úr 1. deild og undir hans stjórn náði Þróttur að festa sig í sessi í efri hluta Bestu deildarinnar. Englendingurinn er núna kominn í nýtt umhverfi í Kópavoginum og það verður ótrúlega áhugavert að fylgjast með því hvernig það mun ganga.
Fótbolti.net fær sérfræðingana Jón Stefán Jónsson og Lilju Dögg Valþórsdóttur til að rýna í styrkleika, veikleika og annað hjá liðunum sem spila í Bestu deildinni í sumar. Jón Stefán, sem er fyrrum þjálfari Tindastóls og Þórs/KA fer yfir það helsta hjá FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Styrkleikar: Breiðablik er og verður sennilega um ókomna tíð eitt af stórveldum íslensks kvennabolta. Á þessu verður svo sannarlega ekki undantekning í ár því þær tefla fram aðeins breyttu en mjög öflugu lið með nýtt þjálfarateymi í brúnni. Einn af styrkleikum Blika alveg klárlega hið gríðarlega fastmótaða skipulag sem Nik hefur komið á liðið eftir komu sína frá Þrótti. En annars er styrkleikarnir auðvitað bara í þeim gríðarlega fjölda bæði ungra og eldri leikmanna sem liðið hefur á skipa. Liðið er gott í fótbolta og ef allt smellur þá verða þær ekki stöðvaðar af mörgum liðum í þessari deild.
Veikleikar: Veikleikarnir sem ég sé helst eru í vörninni, mér fannst hafsentaparið í fyrra ekki af þeim gæðaflokki sem ég vil sjá hjá Breiðabliki og mér finnst ekki alveg búið að taka á þeim málum í vetur. Ég hefði viljað sjá einn mjög öflugan hafsent með reynslu koma inn. Á móti kemur hefur liðið fengið inn Barbáru Sól og Jakobínu Hjörvarsdóttur inn í vörnina ásamt því að Mikaela Nótt snýr aftur reynslunni ríkari frá Keflavík svo það kannski eru þetta óþarfa áhyggjur hjá mér. Sjáum til. Gamla klisjan að Nik sé kannski ekki alveg búinn að finna sitt byrjunarlið gæti alveg kostað liðið aðeins í byrjun ef nefna ætti annan veikleika en miðað við úrslit og gengi í Lengjubikar þá er þetta kannski óþörf vangavelta.
Lykilmenn: Það er alltaf erfitt að velja lykilmenn úr vel mönnuðum liðum en ég held að það halli ekki á neina þegar ég nefni fyrsta til leiks Öglu Maríu Albertsdóttur í þeim efnum. Hana er svo sem óþarfi að kynna hér, einfaldlega einn allra besti sóknarþenkjandi leikmaður landsins. Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði liðsins, er liðinu gífurlega mikilvæg í varnarleiknum. Hún er hátt í tíu árum eldri en næstelsti varnarmaður liðsins miðað við núverandi hóp og verður forvitnilegt að sjá hvort hún spili nýja stöðu í sumar. Að lokum ætla ég hér að taka Heiðu Ragney Viðarsdóttur. Sennilega einn vanmetnasti leikmaður deildarinnar, skilar alltaf sínu og þekkir sín takmörk vel. Vinnusöm og nautsterk á miðjunni. Það verður forvitnilegt að sjá hana og Karítas Tómasdóttur taka á andstæðingunum í sumar.
Leikmaður sem á að fylgjast með: Það eru margir spennandi leikmenn að fylgjast með hjá Blkum en ég mæli sérstaklega með að fylgjast með Hrafnhildi Ásu Halldórsdóttur, framliggjandi miðjumaður, kantmaður, sóknarmaður sem er feykilega aggressív, teknísk og bara mjög skemmtilegur leikmaður í alla staði.
Komnar:
Anna Nurmi frá Finnlandi
Barbára Sól Gísladóttir frá Selfossi
Heiða Ragney Viðarsdóttir frá Stjörnunni
Jakobína Hjörvarsdóttir frá Þór/KA
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir frá Þrótti R.
Mikaela Nótt Pétursdóttir frá Keflavík (var á láni)
Margrét Lea Gísladóttir frá Keflavík (var á láni)
Farnar:
Hafrún Rakel Halldórsdóttir til Danmerkur
Helena Ósk Hálfdánardóttir í Val
Valgerður Ósk Valsdóttir í FH (var á láni)
Bergþóra Sól Ásmundsdóttir til Örebro
Taylor Marie Ziemer til Hollands
Toni Deion Pressley í Aftureldingu
Olga Ingibjörg Einarsdóttir í HK (á láni)
Sara Svanhildur Jóhannsdóttir í Fram (á láni)
Birna Kristín Björnsdóttir í FH
Bryndís Halla Gunnarsdóttir í FH
Harpa Helgadóttir í FH
Margrét Brynja Kristinsdóttir í FH
Herdís Halla Guðbjartsdóttir í FH (á láni)
Hildur Lilja Ágústsdóttir í HK
Linli Tu
Laufey Harpa Halldórsdóttir í Tindastól
Dómur Jónsa fyrir gluggann: Glugginn hjá Blikum hefur að mínu mati verið góður, liðið hefur fengið eitt fremsta þjálfarateymi landsins til sín. Og gert mjög sniðug „kaup“ í þeim Jakobínu, Barbáru og Heiðu. Allar þessar stelpur koma til með að styrkja varnarleik Blika. Þó ég hafi eins og áður sagði viljað sjá einn dóminerandi hafsent koma inn. Blikar hafa vissulega misst mjög sterka leikmenn líka eins og Hafrúnu Rakel og Helelnu Ósk, en sú síðarnefnda var svo sem ekki með á síðasta tímabili vegna meiðsla. Ég ætla að gefa þessum glugga alveg 8.
Fyrstu fimm leikir Breiðabliks:
22. apríl, Breiðablik - Keflavík (Kópavogsvöllur)
27. apríl, Tindastóll - Breiðablik (Sauðárkróksvöllur)
3. maí, Breiðablik - FH (Kópavogsvöllur)
8. maí, Breiðablik - Stjarnan (Kópavogsvöllur)
15. maí, Fylkir - Breiðablik (Würth völlurinn)
Í besta og versta falli: Í besta falli gengur allt upp hjá Blikum í sumar og þær ná að verða fyrir ofan höfuðandstæðinga sína í Val. Í versta falli gætu þær misst eitthvað spútniklið upp fyrir sig og endað í þriðja sæti en ég verð að segja að ég sé ekki fyrir mér að það gerist.
Spámennirnir: Alexandra Bía Sumarliðadóttir, Elíza Gígja Ómarsdóttir, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Hulda Mýrdal, Lilja Dögg Valþórsdóttir, Mist Rúnarsdóttir, Orri Rafn Sigurðarson, Stefán Marteinn Ólafsson, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson, Steinke.