Höttur/Huginn var að styrkja leikmannahópinn hjá sér umtalsvert fyrir seinni hluta sumarsins en liðið er um miðja 2. deild sem stendur, með 18 stig úr 13 leikjum.
Danilo Milenkovic er kominn til félagsins eftir að hafa verið öflugur sem leikmaður KFA í fyrra, en hann er fjölhæfur kantmaður fæddur 1994 sem skoraði 7 mörk í 22 deildarleikjum á síðustu leiktíð.
Danilo er serbneskur og vonast Höttur/Huginn til að hann geti verið mikilvægur hlekkur í liðinu á næstu árum þar sem hann hefur ákveðið að setjast að á Íslandi til frambúðar.
Þá er Brynjar Þorri Magnússon kominn aftur til félagsins eftir að hafa verið hjá KFK á fyrri hluta sumars. Brynjar Þorri fékk ekki spiltíma hjá KFK og er því kominn aftur á Egilsstaði eftir stutta fjarveru.
Brynjar Þorri er öflugur miðjumaður fæddur 2001 sem var valinn íþróttamaður ársins í Héraði fyrir nokkrum árum.
Hann á yfir 100 leiki að baki fyrir félagið og kemur inn í hópinn með dýrmæta reynslu.
Athugasemdir