Davíð Þór Viðarsson og Heimir Guðjónsson. Davíð var fyrirliði í liði Heimis í fyrri tíð Heimis sem þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson: Það er á hans könnu að vera með leikmenn sem eru 19 ára gamlir og eru nógu góðir til að spila með FH
Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður fótboltamála hjá FH, var gestur í hlaðvarpsþættinum ChessAfterDark. Hann var spurður út í ummæli Heimis Guðjónssonar, fyrrum þjálfara FH, í viðtali við Fótbolta.net í vetur.
Ummælin sneru að ungum leikmönnum FH og stefnu félagsins að þeir fái fleiri tækifæri á vellinum. Davíð segir í viðtalinu að leikmenn á 2. flokks aldri hafi einungis fengið 15 mínútur í Bestu deildinni í sumar og segir að markmiðið sé að mínútufjöldinn verði í kringum 500.
Ummælin sneru að ungum leikmönnum FH og stefnu félagsins að þeir fái fleiri tækifæri á vellinum. Davíð segir í viðtalinu að leikmenn á 2. flokks aldri hafi einungis fengið 15 mínútur í Bestu deildinni í sumar og segir að markmiðið sé að mínútufjöldinn verði í kringum 500.
Byrjum á byrjuninni - Viðtal við Davíð um ákvörðunina
Eftir að FH tilkynnti að Heimir yrði ekki áfram þjálfari liðsins var Davíð spurður hvers vegna FH væri að fara í breytingar.
„Það eru ákveðnir tölfræðiþættir, sendingatölfræði t.d. sendingar framávið, pressutölur (PPDA) og fleiri þættir sem við viljum horfa í. Og aldur liðsins, við erum með þriðja yngsta liðið í deildinni, en við viljum færa það ennþá neðar. Okkur finnst 25,7 ár vera of hár meðalaldur. Það sem meira er að okkur finnst við þurfa að koma fleiri leikmönnum sem eru 19 ára og yngri inn í hlutverk, að þeir fái fleiri mínútur. Við erum alltof lágir þar."
Heimir spurður út í ummæli Davíðs
Heimir var spurður út í mínútufjölda ungra leikmanna út frá þeirri staðreynd að FH byrjaði tímabilið illa.
„Það er auðvitað þannig þegar þú ferð sem þjálfari inn í leiki þar sem mikið er undir, þá er ekki oft þannig að það sé mikill tími fyrir tilraunastarfsemi. Davíð kom inn á þennan punkt með 19 ára leikmenn, það er bara hlutur sem kemur mér bara ekkert við, það er á hans könnu að vera með leikmenn sem eru 19 ára gamlir og eru nógu góðir til að spila með FH."
Davíð ósammála Heimi
Í viðtalinu í ChessAfterDark var Davíð spurður út í ráðninguna á Jóhannesi Karli Guðjónssyni sem þjálfara liðsins og út frá því tjáði hann sig um mínútufjölda ungra leikmanna.
„Ef þú ætlar að auka virði hópsins þíns og þá félagsins, þá er það þannig í dag, sama hvað hver segir, þá eru ungir leikmenn verðmætari en eldri leikmenn. Til þess að hámarka leikmannahópsins þá verður þú að vera tilbúinn að gefa ungum leikmönnum sénsinn. Þú þarft að vera tilbúinn að taka sénsinn á því að þeir geti synt, það eru ekkert allir sem geta synt strax, en þú þarft að vera tilbúinn að taka sénsinn. Ég er þar að fleiri heldur en færri séu orðnir syndir. Það er eitthvað sem Jói Kalli er algjörlega sammála mér og okkur í. Við erum ekki að fara stilla upp liði 10. apríl þegar mótið byrjar með ellefu 19 ára gaurum, þetta snýst ekkert um það. En þetta snýst um að við vorum með 15 mínútur held ég fyrir leikmenn á 2. flokks aldri á síðasta tímabili. Fyrir mér eiga þessar mínútur að vera allavega í kringum 500. Það er smá munur."
„Heimir kom í viðtal og sagði að það væri ekki á hans ábyrgð að vera með nógu góða 19 ára leikmenn í hópnum, heldur væri það á minni ábyrgð (Davíðs sem yfirmanns fótboltamála). Það er hans skoðun en ég er ekki sammála henni. Þú færð kannski 2. flokks strák inn í æfingahópinn hjá þér þegar hann er 17 ára og sá er búinn að vera hjá þér í tvö ár. Ég er þar að ég set þá kröfu á þjálfarana mína að þeir hjálpi þeim leikmanni að vera tilbúinn. Langflestir strákar sem koma inn í meistaraflokkshóp 17-18 ára eru þar af því þeir hafa einhvers konar hæfileika sem er í langflestum tilfellum hægt að þróa, eða allavega gefa þeim sénsinn á því að spila í efstu deild. Svo er það leikmannanna að sýna að þeir séu nógu góðir í það," segir Davíð.
Athugasemdir


