Ólafur Ingi Skúlason, þjálfari Breiðabliks, var í áhugaverðu viðtali í útvarpsþættinum Fótbolti.net. Þar fór hann meðal annars yfir leikmannaferil sinn.
Hann endaði farsælan atvinnumannaferil sinn hjá Genclerbirligi og Karabukspor í Tyrklandi þar sem hlutirnir voru nokkuð skrautlegir.
Hann endaði farsælan atvinnumannaferil sinn hjá Genclerbirligi og Karabukspor í Tyrklandi þar sem hlutirnir voru nokkuð skrautlegir.
„Síðasta árið fékk ég ekki greitt og spilaði þar frítt á lokatímabilinu," sagði Ólafur Ingi.
„Það fór því miður illa. Fyrsta árið í Ankara var mjög gott og skemmtilegt. Allur tíminn í Tyrklandi var algjörlega frábær. Ég horfi til baka á þann tíma sem ótrúlega skemmtilegan. Auðvitað var þetta allt öðruvísi en ég er ótrúlega glaður að hafa fengið að upplifa svona öðruvísi stemningu. Ég var búinn að vera í löndum sem svipa til okkar á Íslandi, eru ekki mjög ólík okkar gildum. Það var ótrúlega gaman að upplifa öðruvísi kúltúr og öðruvísi land. Það er mikil ástríða fyrir fótbolta þarna."
„Ég sé ekki eftir mínútu þarna þó ég hafi ekki fengið greitt síðasta árið þarna."
Tómas Þór Þórðarson spurði þá Ólaf hvort hann gæti ekki sótt þennan pening sem hann ætti inni einhvern veginn.
„FIFA er búið að úrskurða það að þeir skuldi mér þennan pening en félagið flakkaði bara á hausinn. Það var enga kröfu að hafa í bú sem var ekki til."
„Fyrsta árið með Karabukspor var mjög skemmtilegt. Við vorum með Igor Tudor sem þjálfara, fyrrverandi þjálfara Juventus og Marseille. Það var mjög lærdómsríkur tími að vinna með honum. Við stóðum okkur vel fyrsta árið en annað árið var bras. Ég ætlaði bara heim eftir þetta fyrsta tímabil en svo vorum við í dauðafæri að komast á HM. Ég ákvað að ég gæti ekki farið heim með það undir eftir að ég missti af EM," sagði Ólafur Ingi.
Hann hefði getað rift samningi sínum í janúar út af peningavandræðum félagsins en spilaði áfram og endaði á því að fara á HM með Íslandi.
„Eftir á að hyggja var þetta rétt ákvörðun," sagði miðjumaðurinn fyrrverandi.
Hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir neðan.
Athugasemdir


