Það hefur vakið mikla athygli að Mikel Arteta stjóri Arsenal hafi ákveðið að skipta um markmann og sett David Raya í byrjunarliðið á kostnað Aaron Ramsdale.
Bernd Leno fyrrum markvörður Arsenal þekkir þessa stöðu vel en hann missti sætið sitt til Ramsdale á sínum tíma.
„Í byrjun tímabilsins árið 2021 töpuðum við fyrstu þremur leikjunum og eftir landsleikjahléið var skyndilega sagt: Við þurfum að breyta og fá jákvæða orku," sagði Leno um málið.
„Það voru nokkrar afsakanir sem ég skildi ekki og ég verð að segja að því miður er þetta svipað með Ramsdale. Þetta hefur gerst aftur eftir landsleikjahlé. Ég hugsaði: Þetta er svipað og ég lenti í."
Leno vorkennir Ramsdale.
„Ég hugsaði um Ramsdale, hann er góður gaur. Ég veit hvernig honum líður, þetta er svipað. Þegar ég vildi berjast fyrir sætinu mínu sagði markmannsþjálfarinn: Þú verður að fara. Þegar hann sagði að þetta snérist ekki um frammistöðuna vissi ég að ég þurfti að fara," sagði Leno.
Leno átti aðeins eitt ár eftir af samningi sínum þegar hann var seldur til Fulham sumarið 2022.