Joao Pedro var ekki í leikmannahópi Brighton sem sigraði Englandsmeistara Liverpool á dögunum.
Fabian Hürzeler þjálfari tók ákvörðun um að skilja Joao Pedro eftir heima vegna rifrildis sem hann átti við liðsfélaga sinn Jan Paul van Hecke fyrir leik Brighton gegn Wolves 10. maí.
Þetta var fjórði leikurinn í röð sem Joao Pedro missti af. Hann fékk að líta beint rautt spjald í tapi gegn Brentford í apríl sem leiddi til sjálfkrafa þriggja leikja banns. Hann átti að koma aftur úr banni í leiknum gegn Liverpool en var ekki í hóp.
Hürzeler hefur neitað að tjá sig um málið og greinir Sky Sports frá því að Brighton sé búið að leysa ágreininginn innanhúss.
Það er þó óljóst hvort Joao Pedro, 23 ára, verði með í lokaleik deildartímabilsins gegn Tottenham Hotspur á sunnudaginn. Brighton hefur náð í 10 stig af 12 mögulegum án Joao Pedro og getur enn náð sæti í Sambandsdeildinni ef Chelsea tapar um helgina og vinnur svo úrslitaleik Sambandsdeildarinnar.
Félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano greinir frá því að Joao Pedro sé tilbúinn til að skipta um félag í sumar, en hann mun kosta um 70 milljónir evra.
20.05.2025 19:40
Joao Pedro ekki með útaf rifrildi við liðsfélaga
Athugasemdir