fös 24. júlí 2020 12:09
Elvar Geir Magnússon
Alfons hluti af liði sem er að verða það besta á Norðurlöndum
Alfons Sampsted í leik með U21 landsliði Íslands.
Alfons Sampsted í leik með U21 landsliði Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í áhugaverðri grein sem birt er á heimasíðu Wyscout er fjallað um norska liðið Bodö/Glimt sem hefur farið með himinskautum í norsku úrvalsdeildinni.

Liðið er með fullt hús eftir níu umferðir og hefur skorað 35 mörk í þessum níu leikjum. Í greininni er félagið hlaðið lofi og sagt að það sé að verða besta lið Norðurlanda.

Í hægri bakverðinum er Alfons Sampsted, 22 ára fyrrum leikmaður Breiðabliks, en hann gekk í raðir félagsins fyrr á þessu ári. Liðið spilar 4-3-3 leikkerfi.

„Ein helsta ástæðan á bak við árangur liðsins hefur verið að sama byrjunarliðið helst og allir vita nákvæmlega sitt hlutverk. Þjálfarinn hefur sett saman leikkerfi sem breytist ekki of mikið og er ekki að flækja hlutina," segir í úttekt Wyscout.

Stór hluti af spilamennsku Bodö/Glimt er hápressa og liðið er gríðarlega hættulegt í skyndisóknum. Ofan á það heldur liðið boltanum vel en að meðaltali er liðið 65% leiktímans með knöttinn. Það er mun meira en næstu lið á þeim lista.

„Bodö/Glimt er ungt lið í gríðarlega góðu formi og með mikinn kraft," segir í greininni en þar er einnig fjallað vel um mikilvægi danska sóknarmannsins Philip Zinckernagel og hversu öflugt þjálfarateymi liðsins er.

Alfons kom til Bodö/Glimt frá Norrköping þar sem hann náði ekki að festa sig í sessi en hjá norska liðinu gengur allt í blóma. Hann hefur spilað alla níu leikina til þessa. Í fyrra lék Alfons níu leiki með Blikum í Pepsi Max-deildinni þegar hann var lánaður til liðsins.

Smelltu hér til að lesa úttektina
Athugasemdir
banner
banner