Liverpool reynir við Pedro næsta sumar - PSG til í að opna veskið fyrir Isak - Nico Williams eftirsóttur
banner
   mán 24. júlí 2023 15:25
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Kári: Annað hvert félag á Íslandi hefur haft samband
Birnir hefur verið einn allra öflugasti leikmaður landsins.
Birnir hefur verið einn allra öflugasti leikmaður landsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þjálfari Riga vill ekki að Birnir framlengi við Víking.
Þjálfari Riga vill ekki að Birnir framlengi við Víking.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Fram kom í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í dag að Breiðablik ætli sér að reyna að fá Birni Snæ Ingason, leikmann Víkings, í sínar raðir.

Birnir á minna en hálft ár eftir af samningi sínum við Víking og önnur félög geta rætt við leikmanninn.

Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi, staðfesti við Fótbolta.net að fleiri félög hefðu haft samband vegna leikmannsins. Félögum ber að hafa samband áður en þau hefja viðræður við leikmann annars félags.

„Það er annað hvert lið á landinu búið að hafa samband. Það er ekkert launungarmál að hann er að renna út á samningi. Annað hvert lið er búið að lýsa áhuga á því að fá hann og mega tala við hann ef þau tilkynna okkur um það. En við erum hins vegar að reyna líka að landa samningum við hann. Það gengur ágætlega, aðeins að rofa til þar. Vonandi náum við bara að klára það og halda honum sem Víkingi."

„Ég skil það mjög vel að lið hafi áhuga á honum, hann er búinn að standa sig frábærlega í ár, búinn að spila mjög vel."


Kári staðfesti að það væru fleiri en eitt félag og fleiri en tvö sem hafa sett í sig samband. En hefur eitthvað erlent félag haft samband?

„Ekki ennþá." Hvað fannst þér ummæli þjálfara Riga?

„Þetta var sérstakt, þetta voru svolítið sérstök ummæli. Veit ekki alveg hvað maður á að segja við þessu, en hann bara sagði þetta og ekkert við því að gera. Hann ræður því hvað hann segir."

Vonastu til að klára samningsmálin við Birni fyrir ákveðinn tíma?

„Auðvitað vonumst við til að klára þetta sem fyrst," sagði Kári.

Birnir er 26 ára gamall kantmaður sem hefur skorað sex mörk og lagt upp fimm í Bestu deildinni á tímabilinu. Hann lagði upp seinna mark Víkings gegn KR í gærkvöldi.
Athugasemdir
banner
banner