Óttar Bjarni Guðmundsson, fyrirliði Leiknis, hefur trú á því að liðið geti náð góðum úrslitum þegar topplið FH mætir í heimsókn í Breiðholtið í Pepsi-deildinni í kvöld klukkan 18:00.
Leiknismenn eru í næst neðsta sæti deildarinnar og þurfa að fara að hala inn stigum, en ljóst er að erfiður leikur bíður nýliðanna gegn FH-ingum sem hafa unnið síðustu fjóra leiki sína.
Leiknismenn eru í næst neðsta sæti deildarinnar og þurfa að fara að hala inn stigum, en ljóst er að erfiður leikur bíður nýliðanna gegn FH-ingum sem hafa unnið síðustu fjóra leiki sína.
„Það er vissulega verðugt verkefni sem bíður okkar gegn FH. Ég hef alltaf tröllatrú á okkar liði og skiptir þá ekki máli hverjir andstæðingarnir eru," segir Óttar Bjarni í samtali við Fótbolta.net.
Hann segir að Leiknismenn séu ekki að svekkja sig yfir jafnteflinu gegn Víkingi í síðustu umferð, en þá fékk Leiknir á sig jöfnunarmark úr umdeildri vítaspyrnu í uppbótartíma.
„Sá leikur er yfirstaðinn og tilheyrir fortíðinni. Þýðir lítið fyrir okkur að dvelja við hann. Við erum búnir að æfa vel frá síðasta leik og fara vel yfir okkar leik," segir Óttar og bætir við að menn verði að vera agaðir gegn FH.
„Við þurfum að vera á tánum í varnaleik okkar, allt frá fremsta manni til aftasta. FH hefur á að skipa frábærum leikmönnum sem geta tekið leikinn í eigin hendur og við þurfum að hafa gætur á þeirra hættulegustu leikmönnum. Við fengum að kynnast því í fyrri leiknum hversu vægðarlausir þeir geta verið og því þurfum við að vera í standi til að taka á móti þeim."
Menn verða að gefa sig 100% í alla leiki
Leiknismenn hafa átt fína leiki gegn sterkari liðum deildarinnar þó úrslitin hafi ekki alltaf fallið með þeim. Óttar segir þó að hver einasti leikur sé jafn mikilvægur.
„Menn vilja alltaf spila við þá bestu til þess að máta sig við þá og verða betri fyrir vikið. Hins vegar held ég að það sé persónubundið hvort það gefi mönnum eitthvað meira. Allir leikir í þessari deild eru mikilvægir, hvort sem það er við liðið sem situr á toppi eða botni. Menn verða að gefa sig 100% í alla leiki, óháð andstæðingi," segir Óttar, sem segir Leiknismenn enn bjartsýna á að þeir geti haldið sér uppi.
„Já auðvitað erum við það. Eins og ég hef sagt áður þá vitum við alveg hvernig það er að vera í fallbaráttu en við vorum í þeirri báráttu 2011 og 2012. Við erum hvergi nærri hættir og munum gefa allt í þá leiki sem eftir eru."
Hann segir mögulegt að Leiknismenn hefðu getað verið með fleiri stig á þessum tímapunkti en telur þó töfluna nokkurn veginn gefa rétta mynd af sumrinu.
„Það fer eftir hvernig þú lítur á hlutina en taflan lýgur aldrei. Við höfum ekki gert nóg til að klára leikina þrátt fyrir að hafa spilað vel. Það er því undir okkur komið að hysja upp sokkana og bretta upp ermar og halda áfram í þessari baráttu," segir Óttar Bjarni að lokum.
Athugasemdir