Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fim 25. apríl 2019 11:15
Arnar Daði Arnarsson
Jón Sveins: Það verður kostur að spila í Safamýri
Jón Sveinsson.
Jón Sveinsson.
Mynd: Fram
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Fram er spáð 6. sæti í spá þjálfara og fyrirliða í Inkasso-deildinni í sumar. Liðið endaði í 9. sæti deildarinnar í fyrra.

Þjálfarabreytingar hafa orðið á liðinu en Jón Sveinsson tók við liðinu í vetur af Portúgalanum, Pedro Hipolito.

Jón segist vera ánægður með þann leikmannahóp sem hann hefur í höndunum. „Ég er fyrst og fremst ánægður með þann hóp sem við höfum. Mikið af ungum efnilegum strákum sem eru að koma upp úr unglingastarfinu. Það er góð stemning í hópnum. Við erum búnir að æfa vel og menn eru virkilega tilbúnir að leggja sig fram."

Hann segir að spáin kom sér að sjálfu sér ekki mikið á óvart.

„Miðað við gengið í fyrra og breytingar á hópnum þá er þetta svosem eðlilegt. Þetta er þó fyrst og fremst til gamans gert en þó gott að vita hvar félagar okkar í deildinni staðsetja okkur."

„Markmiðið okkar er að byggja upp lið til framtíðar sem gerir atlögu að efstu deild og staðsetur sig þar á næstu árum," sagði Jón Þórir sem er ánægður með þá ákvörðun að Fram leiki heimaleiki sína í Safamýrinni og hverfi af Laugardalsvelli.

„Það verður kostur að spila í Safamýri. Þar æfum við og höfum okkar aðsetur. Þrátt fyrir að það sé gaman að spila á þjóðarleikvanginum þá mun skapast meiri heimaleikja stemning í Safamýrinni."

Jón segir að leikmannahópurinn sé klár fyrir átökin í sumar og Fram muni ekki styrkja sig með frekari leikmönnum. Hann á von á nokkuð jafnri deild í sumar.

„Það eru mörg lið sem eiga möguleika á að fara upp. Ef allt gengur upp og ungir menn ná að þroskast hratt þá er allt hægt. Við munum allavega mæta í alla leiki til að vinna þá," sagði Jón Þórir Sveinsson þjálfari Fram að lokum.
Athugasemdir
banner