Manchester City hefur áhuga á Douglas Luiz - Neymar er á leið heim í Santos - Chelsea er með 40 milljóna punda verðmiða á Trevoh Chalobah.
   fim 25. maí 2023 21:19
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Stefán Ingi afgreiddi Val í annað sinn á tímabilinu
Stefán Ingi skoraði sjöunda deildarmark sitt á tímabilinu en meiddist síðan í mjóbaki
Stefán Ingi skoraði sjöunda deildarmark sitt á tímabilinu en meiddist síðan í mjóbaki
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik 1 - 0 Valur
1-0 Stefán Ingi Sigurðarson ('49 )
Lestu um leikinn

Stefán Ingi SIgurðarson var aftur hetja Breiðabliks er liðið vann Val, 1-0, í 9. umferð Bestu deildar karla á Kópavogsvelli í kvöld, en Blikar svitna líklega núna eftir að hann fór meiddur af velli í síðari hálfleiknum.

Blikar byrjuðu frábærlega. Viktor Karl Einarsson þrumaði boltanum í samskeytin eftir sendingu frá Jasoni Daða Svanþórssyni en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Andri Rúnar Bjarnason komst næst því að jafna fyrir Val undir lok fyrri hálfleiks er hann potaði boltanum í átt að marki en Anton Ari Einarsson varði frá honum.

Markalaust í hálfleik en það dró til tíðinda strax í byrjun þess síðari er Stefán Ingi Sigurðarson skoraði. Jason Daði átti laglega sendingu fyrir markið og á fjærstöngina þar sem Stefán Ingi var klár að reka tánni í boltann og þaðan fór hann í stöng og inn.

Stefán Ingi gerði einmitt annað mark Blika í fyrri leiknum á tímabilinu er Blikar unnu 2-0. Þá afgreiddi hann leikinn í uppbótartíma.

Framherjinn knái er með 7 mörk í Bestu deildinni á tímabilinu og er markahæstur en hann fór meiddur af velli á 79. mínútu. Eftir að hann var kominn af vellinum þurfti hann á börum að halda.

Blikar voru nálægt því að gefa sjálfsmönnum mark undir lok leiks. Damir Muminovic potaði boltanum til baka á Anton Ara sem var að hlaupa út úr markinu en sem betur fer fyrir Damir var ekki kraftur í þessu hjá honum og náðu Blikar að hreinsa.

1-0 sigur Blika staðreynd og liðið nú með 21 stig í öðru sæti deildarinnar en Valur í þriðja sæti með 19 stig.
Athugasemdir
banner
banner