Man Utd á eftir De Ligt - Greenwood eftirsóttur - Olise nálgast Chelsea - Mourinho vill fá Lindelöf
   lau 25. maí 2024 15:25
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Grindvíkingar héldu út í Mosfellsbæ
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Afturelding 1 - 1 Grindavík
0-1 Dagur Ingi Hammer Gunnarsson ('55)
1-1 Elmar Kári Enesson Cogic ('61)

Lestu um leikinn: Afturelding 1 -  1 Grindavík

Afturelding og Grindavík áttust við í fyrsta leik dagsins í íslenska boltanum og byrjuðu heimamenn viðureignina betur, þegar Hrannar Snær Magnússon fékk dæmda vítaspyrnu á fimmtu mínútu. Aron Elí Sævarsson steig á vítapunktinn en Ingólfur Hávarðsson varði nokkuð þægilega eftir að hafa lesið spyrnuna.

Einar Karl Ingvarsson átti stangarskot af 40 metra færi og átti Símon Logi Thasaphong stórhættulegan skalla fyrir Grindavík, en heimamenn í Mosfellsbæ voru sterkari og áttu fleiri marktilraunir.

Andri Freyr Jónasson klúðraði dauðafæri fyrir heimamenn í upphafi síðari hálfleiks og tók Dagur Ingi Hammer Gunnarsson forystuna fyrir Grindavík skömmu síðar. Dagur Ingi kláraði mjög vel eftir frábæra fyrirgjöf frá Einari Karli, en gleði Grindvíkinga var skammlíf vegna þess að jöfnunarmarkið leit dagsins ljós aðeins sex mínútum síðar.

Elmar Kári Enesson Cogic skoraði þá með marki beint úr hornspyrnu, þar sem boltinn snerist yfir Ingólf sem átti að gera betur á milli stanganna.

Afturelding tók völdin á vellinum eftir þetta en tókst ekki að koma boltanum í netið og urðu lokatölur 1-1.

Svekkjandi jafntefli fyrir Aftureldingu en Grindvíkingar geta gengið sáttir af velli með dýrmætt stig.

Afturelding er aðeins komin með tvö stig eftir fjórar umferðir á nýju tímabili í Lengjudeildinni á meðan Grindavík er með þrjú stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner