Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   fim 25. júlí 2024 06:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
13 árum seinna mætast þeir á hliðarlínunni
Lengjudeildin
Vigfús Arnar og Árni Freyr í umræddum leik
Vigfús Arnar og Árni Freyr í umræddum leik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leiknismenn fagna sigri á ÍR fyrr í sumar
Leiknismenn fagna sigri á ÍR fyrr í sumar
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
ÍR-ingar fagna sigri á Leikni
ÍR-ingar fagna sigri á Leikni
Mynd: Eva Björk
Úr leik liðanna árið 2018
Úr leik liðanna árið 2018
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óli Hrannar.
Óli Hrannar.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Árni Freyr.
Árni Freyr.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

14. umferð Legjudeildar karla byrjar í kvöld með fjórum leikjum en þeir byrja allir klukkan 19:15. Leikurinn sem fólk horfir kannski hvað mest í í þessari umferð er leikur ÍR og Leiknis Breiðholtsslagurinn sjálfur. Hann verður spilaður í Skógarselinu á heimavelli ÍR-inga.

Seinasti leikur liðanna fór 1-0 fyrir Leikni en sigurmarkið skoraði Omar Sowe.


Lestu um leikinn: ÍR 1 -  0 Leiknir R.

Þeir virða ekki punktinn

Þó að bæði lið hafi tapað sínum seinasta deildarleik eru þau á frekar ólíkum stað í deildinni. ÍR-ingar sitja í 4. sætinu með 19 stig en Leiknismenn eru tveimur stigum frá fallsæti með 12 stig í 10. sætinu.

ÍR-ingar fóru illa að ráði sínu í seinasta leik þegar þeir fengu Keflvíkinga í heimsókn. Keflvíkingar tóku forystuna snemma leiks og fengu að líta rauða spjaldið í fyrri hálfleik. ÍR-ingar voru mestmegnis með boltann í seinni hálfleiknum en náðu lítið að skapa sér almennileg færi til að jafna leikinn. 1-0 tap staðreynd sem reyndist fyrsta tap ÍR-inga í Skógarselinu í ár. En fyrir Keflavíkurleikinn voru ÍR heitasta lið deildarinnar.

Í seinasta leik Leiknis töpuðu þeir 3-2 gegn Njarðvíkingum eftir að hafa tekið forystuna snemma leiks. Títtnefndur Omar Sowe kom Leikni yfir en eftir að hafa lent svo 3-1 undir minnkaði Egill Ingi Benediktsson muninn í 3-2. Leiknismenn reyndu og reyndu að jafna leikinn en það tókst ekki og níunda tap Leiknismanna í deildinni í ár staðreynd. Leiknismenn hafa núna tapað þremur leikjum í röð en fyrir þá leiki voru þeir einmitt búnir að vinna þrjá leiki í röð. Leiknir er eina liðið í efstu þremur deildunum sem á enn eftir að gera jafntefli.

Leiknismenn hafa haft betur í flestum leikjum milli þessara liða samkvæmt KSÍ. En liðin hafa mæst alls 32 sinnum og Leiknir unnið nánast helming þessara leikja eða 15 leiki talsins. ÍR-ingar hafa unnið 12 leiki á Leiknir og 5 leikir hafa endað með jafntefli. Markatalan er 58-43 Leikni í vil. En ef litið er yfir leiki þessara liða í B-deild hafa ÍR-ingar verið sigurstranglegri.

Liðin hafa mæst 15 sinnum í B-deildinni en ÍR-ingar hafa unnið meira en helming þeirra leikja eða 8 leiki talsins. Alls hefur Leiknir unnið 6 leiki en 1 leikur þessara liða í B-deild hefur endað með jafntefli. Sá leikur var spilaður árið 2017 á ÍR-vellinum. Því er ljóst að liðin eru lítið fyrir það að gera jafntefli sín á milli. Einnig hafa Leiknismenn ekki gert eitt einasta jafntefli í sumar eins og kom fram hér áður.

Það gæti verið að Leiknismenn þurfi að virða punktinn oftar í leikjum sínum í sumar þar sem þeir hafa einungis unnið einum færri leik en ÍR-liðið en tapað fjórum fleiri leikjum. Fyrir það eru þeir 7 stigum á eftir ÍR.

Eftirminnilegir leikir

Breiðholtsslagurinn er með þeim skemmtilegustu leikjum ársins þegar ÍR og Leiknir leika í sömu deild en þetta er í fyrsta sinn síðan 2018 þar sem liðin eru í sömu deild. Þá vann ÍR heimaleikinn sinn og Leiknir sömuleiðis. Seinast þegar annað liðið vann báða leikina á sama tímabilinu var árið 2011. Þá vann ÍR 3-2 í Skógarselinu og 2-1 á Leiknisvellinum.

Árið 2012 féll ÍR úr 1. deildinni niður í 2. deildina en það tímabil unnu þeir 2-1 sigur á Leikni. Sá sigur situr ofarlega í hugum ÍR-inga þar sem sigurmarkið kom á seinustu mínútum leiksins. Það var varamaðurinn Guðmundur Gunnar Sveinsson sem skoraði sigurmarkið eftir að hafa verið inn á í 2 mínútur. Margir ÍR-ingar vilja meina að þetta sé eftirminnilegasti sigur ÍR á Leikni í gegnum tíðina.

Það má með sanni segja að seinasti leikur liðanna hafi verið einn besti og jafnvel eftirminnilegasti sigur Leiknis á ÍR. Leikurinn var spilaður í 3. umferð en þá voru Leiknismenn án stiga og ÍR taplausir með fjögur stig. Það var frábær mæting á leikinn frá báðum liðum, líklega í kringum 1000 manns, en stuðningsmannasveitir liðanna létu vel í sér heyra. Omar Sowe skoraði eina mark leiksins um miðjan fyrri hálfleik en hann misnotaði síðan vítaspyrnu um miðjan seinni hálfleik þegar Vilhelm Þráinn, markmaður ÍR varði frá honum. Þetta var þýðingarmikill sigur fyrir Leikni eins og sjá má myndunum af fagnaðarlátunum eftir leik.

Mætast nú á hliðarlínunni

Árni Freyr Guðnason, þjálfari ÍR, og Ólafur Hrannar Kristjánsson, þjálfari Leiknis, eiga það báðir sameiginlegt að hafa spilað fyrir félögin sem þeir stýra í dag. Þessir menn mættust oftar en einu sinni innan vallar en líklega eftirminnilegasti og tíðindamesti leikurinn milli þessara manna var árið 2011 þegar ÍR-ingar unnu 3-2 sigur á Leikni í Skógarselinu. Árni Freyr Guðnason skoraði fyrsta og seinasta mark ÍR í þeim leik en Ólafur Hrannar fékk að líta rauða spjaldið í stöðunni 2-0 fyrir ÍR.

Þess má einnig geta að Vigfús Arnar Jósefsson, núverandi aðstoðarþjálfari KR og fyrrum þjálfari Leiknis, spilaði í þeim leik og var fyrirliði Leiknis. Vigfús, eða Fúsi eins og hann er jafnan kallaður, lét af störfum sem aðalþjálfari Leiknis fyrr á þessu tímabili eftir 5-0 tap við Keflavík í sumar. Til þess að bæta ennþá meiri tengingu við þennan leik var Garðar Gunnar Ásgeirsson, núverandi formaður meistaraflokssráðs Leiknis og fyrrum leikmaður Leiknis, þjálfari liðins í þessum leik ásamt Sigursteini Gíslasyni.

Garðar stýrði einum leik í sumar með núverandi þjálfara Leiknis, Ólafi Hrannari. Sá leikur var gegn Grindavík á Domusnovavellinum en hann tapaðist 3-2. Þetta var fyrsti leikur Leiknis eftir að Vigfús lét af störfum sem aðalþjálfari liðsins.

Eftir að hafa mæst á vellinum fyrir 13 árum munu þeir Árni Freyr Guðnason, þjálfari ÍR, og Ólafur Hrannar Kristjánsson, þjálfari Leiknis, mætast á hliðarlínunni í fyrsta sinn.

Mikilvægur leikur fyrir bæði lið

Líkt og svo oft áður þegar ÍR og Leiknir mætast er að sjálfsögðu montrétturinn undir. En í ár er þetta einnig gífurlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið sem standa í harðri baráttu í deildinni.

Leiknismenn, sem eru aðeins tveimur stigum frá falli í 10. sæti eiga varla efni á því að misstiga sig. Með tapi í kvöld og ef Grótta vinnur Grindavík er Leiknir komið í fallsæti. En með sigri geta þeir minnkað muninn í umspilssætið í minnsta lagi þrjú stig. Skyldi Leiknir vinna minnka þeir bilið í ÍR í fjögur stig. ÍR hefur ætíð verið fyrir ofan Leikni í deildinni í ár.

Það er því allt undir hjá Leiknismönnum en ekki er minna undir hjá ÍR-ingum sem eru í svakalegri umspilsbaráttu. ÍR-ingarnir sitja í 4. sæti deildarinnar með 19 stig en þó tveimur stigum frá Aftureldingu sem eru í 9. sæti. Svakalegur pakki frá 4.- niður í 9. sætið. En töfluna má sjá hér að neðan. Með ÍR sigri í kvöld stækkar ÍR bilið í Leikni í 10 stig. Þó að hér var áður sagt að Leiknismenn mega ekki misstiga sig gildir það sama við ÍR. Þeir standa í ströngu í umspilsbaráttunni.

Leikurinn byrjar 19:15 í kvöld ásamt fjórum öðrum leikjum í Lengjudeildinni. Fótbolti.net verður með þráðbeinar textalýsingar á þessum leikjum og að leik loknum verða tekin viðtöl og skrifaðar skýrslur um leikina. Við hvetjum alla að kíkja á völlinn í kvöld.

Arnór Ingi Kristinsson, leikmaður Leiknis, er eini leikmaðurinn sem er í leikbanni í kvöld fyrir Breiðholtsslaginn.

ÍR-ingar ætla að hittast í fan zone fyrir leik þar sem Árni Freyr Guðnason, annar þjálfari liðsins, mætir og ávarpar stuðningsfólkið.


Leiknismenn tilkynna Kára með stæl sem mun líklega vera í hóp í kvöld


Lengjudeild karla

19:15 Afturelding-Keflavík (Malbikstöðin að Varmá)

19:15 Njarðvík-Þróttur R. (Rafholtsvöllurinn)

19:15 ÍR-Leiknir R. (ÍR-völlur)

19:15 Grótta-Grindavík (Vivaldivöllurinn)


Lengjudeild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    ÍBV 22 11 6 5 50 - 27 +23 39
2.    Keflavík 22 10 8 4 37 - 24 +13 38
3.    Fjölnir 22 10 7 5 34 - 28 +6 37
4.    Afturelding 22 11 3 8 39 - 36 +3 36
5.    ÍR 22 9 8 5 30 - 28 +2 35
6.    Njarðvík 22 8 9 5 34 - 29 +5 33
7.    Þróttur R. 22 8 6 8 37 - 31 +6 30
8.    Leiknir R. 22 8 4 10 33 - 34 -1 28
9.    Grindavík 22 6 8 8 40 - 46 -6 26
10.    Þór 22 6 8 8 32 - 38 -6 26
11.    Grótta 22 4 4 14 31 - 50 -19 16
12.    Dalvík/Reynir 22 2 7 13 23 - 49 -26 13
Athugasemdir
banner
banner
banner