Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 25. nóvember 2020 20:19
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Átti sig ekki almennilega á því hversu góður hann var"
Mynd: Getty Images
Atli Viðar Björnsson og Reynir Leósson ræddu um fráfall Diego Maradona fyrir um leiki kvöldsins í Meistaradeildinni.

Argentíska goðsögnin Maradona lést í kvöld, sextugur að aldri. Argentískir fjölmiðlar segja að Maradona hafi fengið hjartaáfall á heimili sínu.

„Það kemur sjokk þegar maður sér svona fréttir," sagði Atli Viðar. „Þetta er einn af þeim gæjum sem maður ólst upp við að horfa á og dáðst að. Ég held að kynslóðin á eftir okkur, fólk sem er aðeins yngra en við, átti sig ekki almennilega á því hversu góður hann var."

Maradona er einn besti fótboltamaður sem hefur spilað leikinn fallega. Hann er að margra mati sá allra besti. Hann hjálpaði Argentínu að vinna HM 1986, á móti þar sem hann sýndi sínar allra bestu hliðar.

„Ein mín sterkasta fyrsta upplifun af knattspyrnu var 1986 að fylgjast með HM og fylgjast með honum í aðalhlutverki þar. Allt í einu var maður stuðningsmaður Napoli á Ítalíu því hann var að spila þar. Hann var ótrúlega hæfileikaríkur leikmaður með alla sína kosti. Hann var líka með bresti og þurfti að glíma við ýmsa djöfla á sinni lífsleið. Fyrir það fyrsta held ég að allir minnist hans sem stórkostlegs fótboltamanns og mikillar týpu. Hann gerði allt til að vinna," sagði Reynir.

„Auðvitað er þetta liðsíþrótt, en hann leiðir Argentínumenn og keyrir þá áfram þegar þeir verða heimsmeistarar. Hann tekur þetta Napoli lið og fer með það alla leið... það er ótrúlegt hvað hann einn og sér gat dregið vagninn í því að liðin hans náðu árangri," sagði Reynir jafnframt.

Hann spilaði með Boca Juniors, Barcelona og Napoli, og var hann dýrkaður um alla veröld.

Eitt besta dæmið um það hvernig Maradona leiddi Argentínu áfram var í 8-liða úrslitum á HM 1986 gegn Englandi. Hann skoraði tvö sín frægustu mörk í leiknum; Hendi guðs auðvitað og svo þegar hann fór býsna illa með varnarmenn Englands við mikla hrifningu lýsanda frá Argentínu.

Hægt er að lesa grein sem Michael Cox gerði fyrir The Athletic um frammistöðu Maradona gegn Englandi 1986 með því að smella hérna. Hér að neðan má sjá myndband sem var gert um frammistöðu hans í leiknum. Í myndbandinu má sjá mörkin.


Athugasemdir
banner
banner