Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 26. febrúar 2021 11:44
Magnús Már Einarsson
Kosið um tvær tillögur á morgun? - Fjölgun eða tvískipt deild
Allt klárt fyrir rafrænt ársþing.
Allt klárt fyrir rafrænt ársþing.
Mynd: KSÍ
Ársþing KSÍ fer fram á morgun en um er að ræða rafrænt þing að þessu sinni. Þar verður meðal annars kosið um mögulegar breytingar á keppnisfyrirkomulagi í efstu deild karla.

Tillögur að breytingum
Fram - Fjölga í 14 lið í efstu deild. Tvöföld umferð
Fylkir - Fækka í 10 lið og spila þrefalda umferð
ÍA - Halda 12 liðum og spila þrefalda umferð
KSÍ - Halda 12 liðum og bæta við úrslitakeppni. Í úrslitakeppni skal leikin einföld umferð á milli sex efstu liða annars vegar og á milli sex neðstu liða hins vegar

Samkvæmt upplýsingum Vísis úr herbúðum Fylkis og ÍA munu félögin draga tillögur sínar til baka. Skagamenn styðja eftir því sem næst verður komist tillögu Fram en afstaða Fylkis liggur ekki fyrir.

Haukur Hinriksson, lögfræðingur KSÍ, staðfesti við Fótbolta.net í dag að ekki sé búið að draga neina tillögu til baka. Félög eiga kost á að draga tillögur til baka í dag eða á sjálfu þinginu á morgun.

Vísir segir einnig frá því að Framarar verði með stjórnarfund í kvöld innan við sólarhring fyrir þing KSÍ, þar sem þeir taka ákvörðun um framhaldið. Falli þeir frá sinni hugmynd, um 14 liða efstu deild, gæti því tillaga stjórnar KSÍ staðið ein eftir.

Kosið verður á þinginu á morgun en 2/3 atkvæða þarf til að knýja fram breytingar. Því er einnig möguleiki á að engin breyting verði og efsta deild verði með sama fyrirkomulag á næsta ári.

Ef kosið verður um breytingar má búast við að þær taki gildi á næsta ári, keppnistímabilið 2022.
Athugasemdir
banner
banner
banner