Klopp hefur áhuga á Malen - Hvert fer Osimhen? - Juventus leitar að manni í stað Pogba - Man Utd og Chelsea berjast um brasilískan miðjumann
   mið 26. apríl 2023 16:28
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
FH óskar eftir frestun en fær ekki - „KSÍ virðist ekki vera til í það"
watermark Heimavöllur FH.
Heimavöllur FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Ekki orðinn svona grænn.
Ekki orðinn svona grænn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH hefur óskað eftir því að leikur liðsins við KR verði frestað. Í samtali við Fótbolta.net staðfesti Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður fótboltamála hjá FH, að KR hefði samþykkt að fresta leiknum en mótastjórn KSÍ hefði hafnað beiðninni.

Davíð sagði við Fótbolta.net í gær að hann héldi að Kaplakrikavöllur yrði orðinn grænn og fínn fyrir leikinn á föstudaginn. Þau ummæli birtust á síðunni í dag og viðurkennir Davíð að þau ummæli eldist ekki vel, en það sé bara eins og það er.

Sjá einnig:
„Völlurinn verði orðinn grænn og fínn þegar við tökum á móti KR"

„Það er frost í vellinum þeim megin sem stúkan er, sólin kemur svo seint á völlinn og það hefur verið næturfrost. Við erum hræddir um að eyðileggja völlinn með því að spila á honum svona. Við ræddum við KR-ingana og þeir voru til í að fresta leiknum fram á sumar og spila þegar tækifæri gæfist til. En KSÍ virðist ekki vera til í það. Við erum að reyna að fikra okkur áfram í þessu."

„Mér finnst svolítið skrítið að það sé ekki hægt þegar bæði lið samþykkja að fresta. Staðan er akkúrat núna þannig að KSÍ vill ekki fresta leiknum og við erum bara að ráða ráðum okkar."

„Við erum enn í samtali við KSÍ og gerum vonir að það verði hlustað á okkar rök. Það er ekki frábært að standa í þessu tveimur dögum fyrir leik, en eins og þú heyrðir á mér í gær þá vorum við að vonast til að dúkurinn sem við settum á fyrir svolitlu síðan myndi halda það miklum hita að völlurinn myndi taka við sér. En það hefur bara ekki heppnast,"
sagði Davíð.

Hvaða útskýringar fáiði frá KSÍ um af hverju ykkar beiðni er hafnað?

„Þeir eru með einhverjar ástæður fyrir því ,en ég svo sem kaupi þær ekki alveg. Við erum áfram í samtali við mótanefndina til að reyna finna lausn. Það verður einhver lausn á þessu," sagði Davíð.

Ekki náðist í Birki Sveinsson, mótastjóra KSÍ, við vinnslu fréttarinnar. Leikurinn á að fara fram á föstudagskvöld og á að hefjast klukkan 18:00.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner