Arsenal reynir við Kounde - Vardy orðaður við Wrexham - Antony gæti verið áfram hjá Betis
   lau 26. apríl 2025 16:04
Brynjar Ingi Erluson
England: Cunha allt í öllu í sjötta deildarsigri Wolves í röð - Ipswich fallið
Matheus Cunha skoraði og lagði upp tvö
Matheus Cunha skoraði og lagði upp tvö
Mynd: EPA
Ipswich er fallið
Ipswich er fallið
Mynd: EPA
Carlos Baleba skoraði sturlað mark af 35 metra færi
Carlos Baleba skoraði sturlað mark af 35 metra færi
Mynd: EPA
Ipswich er fallið niður í ensku B-deildinni eftir að liðið tapaði fyrir Newcastle, 3-0, á St. James' Park í 34. umferð úrvalsdeildarinnar í dag. Brasilíumaðurinn Matheus Cunha skoraði og lagði upp tvö er Wolves vann sjötta deildarleik sinn í röð.

Nýliðar Ipswich þurftu sigur í dag til að halda einhverri von á lífi um að halda sæti sínu.

Það varð hins vegar nánast útilokað þegar Ben Johnson fékk að líta tvö gul spjöld á sjö mínútum undir lok fyrri hálfleiksins og versnuðu hlutirnir þegar Newcastle fékk vítaspyrnu nokkrum mínútum síðar er brotið var á Jacob Murphy hægra megin í teignum.

Alexander Isak steig á punktinn og skoraði 22. deildarmark sitt á tímabilinu.

Dan Burn bætti við öðru marki snemma í síðari hálfleik eftir fullkomlega útfærða hornspyrnu. Hún var tekin stutt og eftir smá spil var það Kieran Trippier sem kom honum á fjær á Burn sem stangaði boltann í netið.

Danski leikmaðurinn William Osula gulltryggði sigur Newcastle með þriðja markinu tíu mínútum fyrir leikslok og þar við sat. Newcastle upp í 3. sæti deildarinnar með 62 stig en Ipswich í 18. sæti með 21 stig og er nú fallið niður um deild.

Matheus Cunha skoraði og lagði upp tvö í 3-0 sigri Wolves á Leicester á Molineux.

Cunha, sem hefur verið orðaður við Manchester United síðustu daga, létt orðróminn ekkert hafa áhrif á spilamennskuna. Hann skoraði á 33. mínútu eftir undirbúning Rayan Ait-Nouri og lagði síðan upp annað markið fyrir Jörgen Strand Larsen í síðari hálfleiknum.

Jamie Vardy er að spila síðustu leiki sína í treyju Leicester og fékk hann gullið tækifæri til að koma Leicester inn í leikinn er gestirnir fengu vítaspyrnu, en José Sá sá við honum.

Á lokamínútunum náði Cunha í aðra stoðsendingu sína í leiknum er hann var kominn einn á móti varnarmanni en í stað þess að skjóta lagði hann boltann til hliðar á Rodrigo Gomes sem gerði út um leikinn.

Sjötti sigur Wolves í röð á meðan Leicester var að tapa tíunda af síðustu tólf leikjum liðsins.

Fulham vann 2-1 endurkomusigur á botnliði Southampton á Saint Mary's.

Jack Stephens kom heimamönnum yfir á 14. mínútu en Fulham kom til baka í þeim síðari meö mörkum frá Emile Smith Rowe og Ryan Sessegnon.

Fulham er í 8. sæti með 51 stig og á enn möguleika á að komast í Evrópukeppni á næsta tímabili.

Brighton átti þá ótrúlega endurkomu í 3-2 sigri liðsins á West Ham á AMEX-leikvanginum.

Heimamenn í Brighton fóru með 1-0 forystu inn í hálfleikinn þökk sé Yasin Ayari, en Mohammed Kudus jafnaði eftir stoðsendingu Jarrod Bowen snemma í síðari.

Tomas Soucek kom West Ham yfir þegar sjö mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og aftur var það Bowen sem lagði upp, en Brighton lagði ekki árar í bát.

Varamennirnir Brajan Gruda og Karou Mitoma breyttu leiknum fyrir Brighton. Mitoma jafnaði metin eftir stoðsendingu Gruda áður en Carlos Baleba gerði sigurmarkið með stórkostlegu skoti fyrir utan teig og framhjá hreyfingarlausum Alphonse Areola í markinu.

Brighton er í 9. sæti með 51 stig en West Ham í 17. sæti með 36 stig. Tap Ipswich þýðir að West Ham heldur sæti sínu deildinni.

Brighton 3 - 2 West Ham
1-0 Yasin Ayari ('13 )
1-1 Mohammed Kudus ('49 )
1-2 Tomas Soucek ('83 )
2-2 Kaoru Mitoma ('89 )
3-2 Carlos Baleba ('90 )

Newcastle 3 - 0 Ipswich Town
1-0 Alexander Isak ('45 , víti)
2-0 Dan Burn ('56 )
3-0 William Osula ('80 )
Rautt spjald: Ben Johnson, Ipswich Town ('37)

Southampton 1 - 2 Fulham
1-0 Jack Stephens ('14 )
1-1 Emile Smith-Rowe ('72 )
1-2 Ryan Sessegnon ('90 )

Wolves 3 - 0 Leicester City
1-0 Matheus Cunha ('33 )
2-0 Jorgen Strand Larsen ('56 )
2-0 Jamie Vardy ('72 , Misnotað víti)
3-0 Rodrigo Gomes ('85 )
Athugasemdir
banner