Kaveh Solhekol, blaðamaður hjá Sky Sports, segir ekkert til í því að Liverpool sé á eftir þýska landsliðsmanninum Florian Wirtz.
Sky sagði frá því í gær að Bayer Leverkusen hafi gefið Manchester City leyfi til þess að ræða við Wirtz og flaug leikmaðurinn ásamt föruneyti sínu til Bretlandseyja til að hefja viðræður.
Enskir miðlar greindu frá því að Wirtz hafi ekki rætt við Man City í ferðinni heldur hafi hann fundað með Liverpool.
David Ornstein hjá Athletic, sem er talinn einn sá allra áreiðanlegasti í bransanum, segir að Liverpool hafi verið í sambandi við föruneyti Wirtz.
Lýsti Liverpool þar yfir áhuga á að kaupa leikmanninn frá Leverkusen, en Solhekol segir þetta ekki rétt.
Segir hann að Wirtz hafi ekki fundað með Liverpool en að félagið sé samt að fylgjast með stöðunni og muni reyna við hann ef það fær upplýsingar um að hann hafi raunverulegan áhuga á að spila á Englandi.
Bayern München er talinn líklegur kostur fyrir Wirtz en hvort Bayern hafi efni á því að fá hann í sumar er óvíst. Real Madrid hefur einnig komið upp í umræðunni, en félagið hefur engin plön um að kaupa hann á þessu ári.
Athugasemdir