„Flottur sigur sem við skópum í fyrri hálfleiknum.“ sagði Ólafur Hrannar Kristjánsson, þjálfari Leiknis, eftir 3-1 sigur gegn Þrótti í 9. umferð Lengjudeild karla.
Lestu um leikinn: Leiknir R. 3 - 1 Þróttur R.
„Við spiluðum mjög góðan fótbolta í fyrri hálfleiknum og uppskárum tvö mörk snemma í leiknum. Seinni hálfleikurinn var eitthvað sem við viljum líta betur á og bæta. Förum illa með mikið af færum og góðum leikstöðum þar sem við eigum að gera betur.“
Jorgen Pettersen minnkaði muninn á 87. mínútu leiksins fyrir Þrótt sem hefði mögulega getað fært smá spennu í lokamínútur leiksins.
„Ég var ekkert laus við það að það færi smá ónotatilfinning um mig þegar þeir minnka muninn. Við vissum að það yrði talsvert bætt við og við vorum komnir of aftarlega. Þeir voru búnir að negla okkur ansi langt niður völlinn. Svo bara fáum við góða skyndisókn og tryggjum sigurinn.“
Leiknir kemur til með að etja kappi gegn Dalvík/Reyni á sunnudaginn fyrir norðan. Það verður þriðji leikur Leiknis á átta dögum, þar af eru tveir af þeim útileikir fyrir norðan en hinir útileikurinn var gegn Þór.
„Við förum varlega á æfingum og strákarnir hugsa vel um sig og koma eins tilbúnir og þeir geta í öll verkefni. Það er ekkert hægt að biðja um mikið meira þegar það er spilað svona ört.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.