Man Utd berst við Arsenal um Gyökeres - Chelsea og Napoli vilja Garnacho - Milan hættir að eltast við Rashford
   mán 26. ágúst 2024 17:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Vorum búnir að loka á að það væri einhver að fara frá okkur"
Byrjaði sinn þriðja leik í sumar í gær. Alls hefur hann komið við sögu í sex deildarleikjum.
Byrjaði sinn þriðja leik í sumar í gær. Alls hefur hann komið við sögu í sex deildarleikjum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Damir meiddist gegn Fram.
Damir meiddist gegn Fram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Obbekjær samdi við Breiðablik í vetur.
Obbekjær samdi við Breiðablik í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Í síðustu leikjum hafa þeir sem hafa komið inn á gert rosalega mikið fyrir okkur'
'Í síðustu leikjum hafa þeir sem hafa komið inn á gert rosalega mikið fyrir okkur'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daniel Obbekjær fékk í gær kallið í byrjunarlið Breiðabliks í þriðja skiptið í sumar. Danski miðvörðurinn leysti af Damir Muminovic sem meiddist í deildarleiknum gegn Fram í síðustu viku. Breiðablik sigraði ÍA í gær og er komið á topp Bestu deildarinnar.

Obbekjær kom til Breiðabliks í vetur og var fjallað um tilboð frá norska félaginu Mjöndalen í síðustu viku. Hann er 22 ára og uppallinn hjá OB. Hann gekk í raðir Breiðabliks fyrir tímabilið frá 07 Vestur í Færeyjum.

Fótbolti.net ræddi við Halldór Árnason, þjálfara Breiðabliks, um danska miðvörðinn. En fyrst var spurt út í meiðsli Damirs.

Lestu um leikinn: ÍA 1 -  2 Breiðablik

„Þetta var sennilega óþarfi, en þetta var í hita leiksins. Þetta er vont, það er vont að fá spark í bakið. Damir er bara að jafna sig á því og ég hugsa að það sé stutt í hann," segir Dóri. Damir þurfti að fara af velli eftir viðskipti við Guðmund Magnússon í leiknum gegn Fram.

Fullkomið traust
Obbekjær kom inn á fyrir Damir gegn Fram og lék í um 10 mínútur. En fyrir það hafði hann ekki spilað í sex vikur. Var auðvelt að setja hann inn í liðið núna og koma honum í takt við það?

„Já, við treystum honum fullkomlega. Þegar þú ert kominn með strúktúr á liðið, þá ertu ekki að leika þér að skipta um hafsenta þér til gamans. Hann hefur verið þolinmóður og tekið tækifærin sín vel. Hann hefur spilað vel þegar hann hefur spilað og nýtt tækifærin sín vel. Hann var búinn að skora í báðum leikjunum sem hann hafði byrjað fyrir leikinn í gær, og skoraði reyndar mark í gær sem var fullkomlega löglegt. Það mark var ranglega dæmt af honum. Hann er mjög hættulegur í föstum leikatriðum og hefur líka gert vel fyrir okkur í varnarleiknum. Við treystum honum klárlega til að spila og hann hefur alltaf spilað vel þegar hann hefur fengið kallið. Það er frábær nýting á hópnum og við vorum ánægðir með hann í gær," segir Dóri.

Væri kominn með þrjú í þremur byrjunarliðsleikjum
Þegar þú ert með leikmann sem skorar í hverjum leik, af hverju spilar hann ekki alltaf?

„Ef hafsentar væru bara dæmdir af mörkum skoruðum hjá sér þá væri það svolítið skrítið. En hann er auðvitað stór og góður í föstum leikatriðum, bæði sóknar- og varnarlega. Markið gegn Fylki var auðvelt en markið gegn Vestra var geggjað. Markið í gær var svo mjög vel gert hjá honum, fann pláss á fjærstönginni. Það sést mjög vel í spiideo upptöku að markið í gær var löglegt. Hann þefar færin uppi sem er vel gert hjá honum."

„Þá þurfti ekki einu sinni að hugsa þetta"
Obbekjær virðist vera þriðji kostur í hjarta varnarinnar á eftir Viktori Erni Margeirssyni og áðurnefndum Damir. Skipta meiðsli Damirs máli í ákvörðun Breiðabliks að hafna tilboðinu frá Noregi?

„Staðan er bara þannig að það er enginn að fara frá okkur. Við erum í þeirri stöðu núna að við viljum hafa hópinn kláran. Auðvitað er Arnór Sveinn (Aðalsteinsson) hjá okkur, er heill núna, en það er langt síðan hann hefur spilað nokkra leiki í röð. Okkur fannst ekki skynsamur tími til að fækka kostum í varnarlínunni. Svo koma meiðsli Damirs upp í kjölfarið og þá þurfti ekki einu sinni að hugsa þetta. Við vorum bara búnir að loka á að það væri einhver að fara frá okkur."

„Það er erfitt að vera á bekknum, það finnst það öllum, menn vilja spila meira. En menn hafa gert vel í að halda haus og nýta sínar mínútur. Í síðustu leikjum hafa þeir sem hafa komið inn á gert rosalega mikið fyrir okkur. Skiptingarnar í gær gerðu t.d. mikið fyrir okkur. Við höfum getað nýtt hópinn mjög vel og menn hafa gert vel í því að spila vel fyrir liðið þegar þeir fá tækifæri. Það hefur verið hlutverk Daniels í sumar og hann hefur gert það virkilega vel."


Mikilvægur hlekkur í hópnum
Þurftiru að taka samtalið við hann þegar tilboðinu var hafnað eða var hann meðvitaður um stöðuna?

„Hann var opinn fyrir því að skoða að fara eitthvert ef hann væri með tryggðan spilatíma þar. Hann er ungur og efnilegur leikmaður sem vill spila meira. Hann er búinn að standa sig vel og ég hef sagt við hann áður að hann er mikilvægur í hópnum og við þurfum á honum að halda reglulega. Það er stutt eftir af tímabilinu, menn geta meiðst og farið í leikbann, hann skildi stöðuna og spilaði 90 mínútur fáránlega vel í síðasta leik. Svona er bara fótboltinn," segir Dóri.
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Víkingur R. 22 15 4 3 56 - 23 +33 49
2.    Breiðablik 22 15 4 3 53 - 28 +25 49
3.    Valur 22 11 5 6 53 - 33 +20 38
4.    ÍA 22 10 4 8 41 - 31 +10 34
5.    Stjarnan 22 10 4 8 40 - 35 +5 34
6.    FH 22 9 6 7 39 - 38 +1 33
7.    Fram 22 7 6 9 31 - 32 -1 27
8.    KA 22 7 6 9 32 - 38 -6 27
9.    KR 22 5 6 11 35 - 46 -11 21
10.    HK 22 6 2 14 26 - 56 -30 20
11.    Vestri 22 4 6 12 22 - 43 -21 18
12.    Fylkir 22 4 5 13 26 - 51 -25 17
Athugasemdir
banner