Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 26. nóvember 2020 14:00
Magnús Már Einarsson
Krabbamein fannst eftir vítaspyrnu frá syni hans
Gísli Gunnar Oddgeirsson (til vinstri) eftir leik hjá Magna í sumar.
Gísli Gunnar Oddgeirsson (til vinstri) eftir leik hjá Magna í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gísli Gunnar Oddgeirsson, framkvæmdastjóri Magna á Grenivík, var um síðustu helgi í áhugaverðu viðtali í Sunnudagssögum á Rás 2.

Gísli hefur gengið í gegnum ýmislegt síðastliðin ár en árið 2011 greindist hann með krabbamein. Krabbameinið fannst í kjölfar þess að hann varði vítaspyrnu í frá syni sínum í fótboltaleik á Grenivík á sjómannadaginn.

„Ég var búinn að verja eins og brjálæðingur þennan sjómannadag. Svo þrumar hann á markið og ég lendi einhvern veginn ofan á boltanum, varði nú samt vítið. Þá gerist eitthvað, ég fer að finna svona ofboðslega til,” sagði Gísli í viðtalinu.

Gísli harkaði af sér til að komast í sjómannaveislu um kvöldið. Um nóttina leið honum verulega illa. Hann taldi sig þurfa að kasta upp og komst inn á klósett en fór þá að pissa blóði. Rannsóknir leiddu í ljós að hann var með krabbamein en það var staðbundið og hægt að fjarlægja það með skurðaðgerð.

„Svo fer ég í aðgerðina einhverjum 15 dögum síðar og þar er nýrað tekið. Það var meira en þeir áttu von á, þetta var komið í nýrnaleiðarana, nýrnahetturnar og þetta var bara hreinsað út. Ég var það ofboðslega heppinn að þetta var þannig krabbamein að þetta var bara aðgerð,” segir Gísli í viðtalinu á Rás 2.

Gísli hefur lent í ýmsum öðrum áföllum eins og lesa má um á vef RÚV. Einnig er hægt að hlusta á viðtalið á Rás 2 í heild sinni hér.
Athugasemdir
banner
banner
banner