fim 26. nóvember 2020 19:04
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Sigur í Slóvakíu - Allt annað að sjá liðið í seinni hálfleik
Umspilssætið tryggt
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland 3 - 1 Slóvakía
0-1 Mária Mikolajová ('25 )
1-1 Berglind Björg Þorvaldsdóttir ('61 )
2-1 Sara Björk Gunnarsdóttir ('67 , víti)
3-1 Sara Björk Gunnarsdóttir ('77 , víti)
Lestu nánar um leikinn

Íslenska kvennalandsliðið mætti Slóvakíu ytra í dag. Ljóst var að með sigri eða jafntefli yrði íslenska liðið öruggt með annað sætið í riðlinum.

Slóvakíska liðið var öflugra liðið í fyrri hálfleik og leiddi verðskuldað í leikhléi. Maria Mikolajova skoraði eina mark fyrri hálfleiksins á 25. mínútu með skoti sem Sandra Sigurðardóttir í marki íslenska liðsins réði ekki við.

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn vel en hlé varð á leiknum eftir tæpar tvær mínútur þar sem rafmagnslaust varð á vellinum. Slóvakíska liðið kom betur út úr hléinu en íslenska liðinu óx ásmeginn og jafnaði Berglind Björg Þorvaldsdóttir metin á 61. mínútu, allt annað var að sjá íslenska liðið í seinni hálfleiknum eftir erfiðan og lélegan fyrri hálfleik.

„Agla María gerir hrikalega vel, leitar inn á völlinn og senfir boltann á fjær þar sem Sveindís mætir og leggur boltann fyrir á Berglindi sem kemur boltanum yfir línuna," skrifaði Baldvin Már Borgarsson í textalýsingunni.

Sara Björk Gunnarsdóttir kom íslenska liðinu yfir á 67. mínútu þegar hún skoraði úr annarri tilraun af vítapunktinum. Fyrri tilraunin var varin en Sara fékk að taka spyrnuna aftur og skoraði þá af öryggi.

Sara skoraði aftur úr vítaspyrnu á 77. mínútu eftir að Elín Metta Jensen var tekin niður í teignum. Sigurinn var ekki í neinni hættu eftir þetta og íslenska liðið þremur stigum ríkara eftir leikinn.

Liðið er og verður í 2. sæti í riðlinum. Sigur þarf að vinnast gegn Ungverjalandi í lokaleiknum til að möguleiki sé á því að liðið verði eitt af þremur efstu liðunum sem enda í 2. sæti síns riðils. Liðið er með sigrinum í kvöld öruggt með umspilssæti fyrir lokakeppni EM sem haldið verður á Englandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner