Arsenal á eftir miðjumanni Elche - Roma vill fá Zirkzee lánaðan - City gæti blandað sér í baráttuna um Semenyo
banner
   mið 26. nóvember 2025 13:17
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Sverrir Páll: Finnst ég eiga eftir að eiga þannig tímabil
'Ég býst við því að það verði einhverjir möguleikar í stöðunni'
'Ég býst við því að það verði einhverjir möguleikar í stöðunni'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Tíminn í Eyjum var góður og geggjað að búa þar'
'Tíminn í Eyjum var góður og geggjað að búa þar'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það eru allar líkur á að ég verði ekki í Eyjum, ég er búinn að vera þar í þrjú tímabil og ekkert illt að segja um Vestmannaeyjar, en mér finnst þetta komið gott," segir Sverrir Páll Hjaltested.

„Eyjar eru geggjaður staður, ég stofnaði fyrirtæki og kynntist mörgu góðu fólki. Tíminn í Eyjum var góður og geggjað að búa þar," segir Sverrir sem er uppalinn hjá Víkingi.

Sverrir er 25 ára framherji og átti nokkuð gott tímabil. Hann skoraði sex mörk með ÍBV í sumar og lagði upp eitt í fjórtán byrjunarliðsleikjum. Meiðsli settu sitt strik á undirbúningstímabilið, hann virtist ekki í stóru hlutverki í byrjun móts en það stækkaði til muna þegar Omar Sowe sleit krossband nokkuð snemma móts.

Sverrir kom til ÍBV frá Val fyrir tímabilið 2023 og var því að klára sitt þriðja tímabil í Eyjum. Samningur hans við ÍBV rennur út í lok árs.

Undirbúningstímabilið er langt en Íslandsmótið byrjar væntanlega í byrjun apríl. Hann hefur heyrt af áhuga frá öðrum félögum en er ekki að flýta sér að skrifa undir.

„Ég er bara að kanna landið, verð ekkert stressaður ef ég er ekki búinn að skrifa undir í byrjun janúar, held þessu öllu opnu. Ég býst við því að það verði einhverjir möguleikar í stöðunni. Ég vil fá að vita hvaða pælingar þjálfararinn er með og svoleiðis áður en ég stekk á eitthvað. Mér finnst ég eiga eftir að eiga tímabilið þar sem ég spila alla leiki og skora fleiri mörk."

Sverrir æfði með Fram síðustu vikur Íslandsmótsins eftir að skólinn byrjaði. Fram er eitt af þeim félögum sem hafa, samkvæmt heimildum Fótbolta.net, sýnt honum áhuga, en Sverrir hefur sjálfur ekki rætt við neitt félag á þessum tímapunkti.
Athugasemdir
banner
banner