Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fös 27. janúar 2023 17:18
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Ómar spurður út í ýmsa leikmenn - Ætla ekki að endursemja við Bruno
Bruno, Ásgeir Marteins, Ólafur Örn, Aziz, Stefán Ingi, Matti Villa...
Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK.
Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásgeir Marteinsson fór í Aftureldingu.
Ásgeir Marteinsson fór í Aftureldingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bruno Soares.
Bruno Soares.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Marciano Aziz.
Marciano Aziz.
Mynd: HK
Stefán Ingi Sigurðarson.
Stefán Ingi Sigurðarson.
Mynd: Twitter/valgeir29
Matthías Vilhjálmsson.
Matthías Vilhjálmsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
HK leikur í Bestu deildinni í sumar.
HK leikur í Bestu deildinni í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
„Ég er sáttur við það hvernig hefur gengið á leikmannamarkaðnum hingað til," segir Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, í samtali við Fótbolta.net í dag.

„Við styrkjum okkar með Brynjari, Atla, Atla og Marciano."

HK komst upp í Bestu deildina á nýjan leik með því að enda í öðru sæti Lengjudeildarinnar á síðustu leiktíð. Frá síðustu leiktíð hafa fjórir leikmenn komið til félagsins og sex leikmenn farið. Ómar býst við því að HK muni styrkja sig enn frekar áður en Besta deildin byrjar í apríl næstkomandi.

„Ég geri ráð fyrir því að við munum bæta við okkur meira áður en tímabilið byrjar. Hvað það verður, það kemur í ljós. Við erum að líta í kringum okkur varðandi það að styrkja liðið," segir þjálfari HK-inga.

Alltaf erfitt að horfa á eftir góðum leikmönnum
HK hefur misst mikilvæga leikmenn og þar af eru til að mynda Ásgeir Marteinsson og Ólafur Örn Eyjólfsson, sem eru báðir uppaldir hjá félaginu.

„Það er alltaf erfitt að horfa á eftir góðum leikmönnum fara. Bæði Ólafur og Ásgeir eru uppaldir strákar sem ég hef þekkt frá því þeir voru mjög litlir. Stundum er þetta svona. Hlutirnir ná ekki að smella saman og þá fer þetta svona," segir Ómar og bætir við:

„Ég vona innilega að þeim gangi sem allra best þar sem þeir eru næsta sumar."

Ásgeir fór í Aftureldingu sem er í Lengjudeildinni og Ólafur Örn fór í Þrótt Vogum í 2. deild. Af hverju eru þeir að fara úr HK á þessum tímapunkti?

„Þeir voru báðir samningslausir. Þetta er samspil af nokkrum mismunandi þáttum sem verður til þess að þeir munu spila annars staðar næsta sumar."

Ætla ekki að endursemja við Bruno
Brasilíski miðvörðurinn Bruno Soares var valinn í lið ársins eftir síðustu leiktíð þar sem hann spilaði stórt hlutverk í því að HK komst upp. Hann talaði um það eftir síðasta tímabil að hann vildi spila áfram með HK en félagið ætlar ekki að endursemja við hann eins og staðan er í dag. Félagið ætlar að horfa annað fyrir Bestu deildina.

„Nei, eins og staðan er í dag þá erum við ekki að horfa til þess að endursemja við hann."

„Við tókum samtalið í haust - við hann og umboðsmann hans - um að við sáum ekki fyrir að það samstarf myndi halda áfram. Samstarfið var þó ánægjulegt allt síðasta sumar. Við erum að horfa annað varðandi miðvörð næsta sumar."

„Bruno var að mörgu leyti algjörlega fullkominn fyrir það sem við vildum gera síðasta sumar; reynslan, skapið og metnaðurinn reyndust okkur mjög vel. Við teljum okkur þurfa að breyta aðeins til fyrir næsta sumar."

Kræktu í einn besta leikmann Lengjudeildarinnar
Það var tilkynnt á dögunum að HK hefði krækt í Marciano Aziz frá Aftureldingu, en hann var einn heitasti bitinn á markaðnum eftir að hafa komið sem stormsveipur inn í Lengjudeildina á síðustu leiktíð.

Hann er 21 árs sóknarsinnaður miðjumaður sem vildi máta sig í efstu deild eftir að hafa skorað tíu mörk í tíu leikjum í Lengjudeildinni síðasta sumar.

„Ég er mjög ánægður með það," segir Ómar um að Aziz hafi valið að koma í HK en Kópavogsfélagið hafði lengi verið að elta leikmanninn. „Hann gerði mjög vel í Lengjudeildinni í fyrra. Við vorum farnir að vinna í þessu strax undir lok síðasta tímabils."

„Hann kom núna í janúar og er að komast inn í það að kynnast nýjum samherjum og nýjum aðstæðum. Það fer ekki á milli mála að þarna er á ferðinni mjög hæfileikaríkur fótboltamaður, það er klárt mál. Hann er að klára aðra vikuna núna og er búinn að taka um tíu æfingar. Hann lítur mjög vel út."

Getur hann blómstrað í Bestu deildinni?

„Ég held að hann geti blómstrað í Bestu deildinni, hann er klárlega með hæfileikana til þess. Þetta er spurning um það hversu hratt hann kemst inn í hlutina, lærir á samherja sína og hversu hratt hann kemst inn í hópinn. Það sést langar leiðir að hæfileikarnir eru til staðar svo hann geti blómstrað í efstu deild."

Kemur Stefán Ingi aftur í Kórinn?
Stefán Ingi Sigurðarson var einn best leikmaður Lengjudeildarinnar síðasta sumar þegar hann lék með HK á láni frá nágrönnunum í Breiðabliki.

Stefán fékk leikheimild í byrjun maí og lék þrettán deildarleiki áður en hann hélt til Bandaríkjanna í ágúst. Í þeim þrettán leikjum skoraði hann tíu mörk og vann sér inn sæti í liði ársins. Hann var í háskóla í Bandaríkjunum en kláraði námið um síðustu áramót.

„Það var eitthvað í haust náttúrulega," segir Ómar um það hvort HK hafi verið í viðræðum við Breiðablik um að fá Stefán aftur til félagsins.

„Mér sýnist á hans fyrstu vikum niðri í Smára að hann sé að fá að spila. Hann er að byrja leikina sem þeir hafa verið að spila undanfarið. Mér sýnist samtalið á milli Blika og Stefáns vera á þá leið að hann verði í einhverju hlutverki hjá þeim. Það verður að koma í ljós hvernig það þróast."

Eðlilegt að hann hafi verið orðaður við okkur
Matthías Vilhjálmsson var orðaður við HK áður en hann fór í Víking úr FH. Var einhvern tímann eitthvað í gangi þar?

„Það fer eftir því hvernig þú orðar það," segir Ómar við þeirri spurningu.

„Ég held að flestöll félög hefðu viljað fá Matta í sitt lið. Hann og Leifur Andri (Leifsson, fyrirliði HK) eru mjög góðir vinir. Eðlilega fór það eitthvað af stað, en ég held að við höfum ekki farið í neinar viðræður við hann. Ekki svo ég viti allavega."

„Það er eðlilegt að hann hafi verið orðaður við okkur; bæði tengingin við Leif og svo er sonur hans í 3. flokki hjá okkur. Ég held að öll félög hefðu viljað fá hann, en ég veit ekki til þess að það hafi farið eitthvað lengra en það."

Er vongóður fyrir sumarið
HK var í 11. sæti í fyrstu ótímabæru spá Fótbolta.net fyrir Bestu deildina, en Ómar er vongóður fyrir sumarið. Eðlilega verður markmið HK að halda sér uppi í deildinni.

„Ég er það, ég er klárlega vongóður fyrir sumrinu. Ég veit hvað býr í strákunum," segir Ómar og bætir við:

„Langstærstur hluti liðsins er á góðu róli þegar kemur að aldri og er með góða reynslu úr deildinni. Stór hluti af hópnum spilaði fyrir félagið í efstu deild. Svo höfum við bætt við strákum eins og Atla Hrafni og Brynjari sem hafa spilað í þessari deild. Ég er vongóður fyrir sumrinu, alveg klárlega."

HK

Komnir
Atli Hrafn Andrason frá ÍBV
Atli Þór Jónasson frá Hamri
Brynjar Snær Pálsson frá ÍA
Marciano Aziz frá Aftureldingu

Farnir
Ásgeir Marteinsson í Aftureldingu
Stefán Ingi Sigurðarson í Breiðablik (var á láni)
Bjarni Gunnarsson í Fjölni
Bjarni Páll Linnet Runólfsson í Aftureldingu
Ólafur Örn Eyjólfsson í Þrótt Vogum
Bruno Soares

Sjá einnig:
Var að glíma við andleg veikindi og hugsaði um að hætta í fótbolta
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner