Jorginho, Graham Potter, Zinedine Zidane, Xabi Alonso, Ramsdale og fleiri koma við sögu
   mán 27. nóvember 2023 23:23
Brynjar Ingi Erluson
Eitt allsherjar klúður í Noregi - „Væri ekki eðlilegt ef menn vildu ekki koma einhverju frá hjartanu sínu“
Terje Marcussen, fyrrum framkvæmdastjóri norska félagsins Start
Terje Marcussen, fyrrum framkvæmdastjóri norska félagsins Start
Mynd: Heimasíða Start
Bjarni Mark Duffield
Bjarni Mark Duffield
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: IK Start
Mynd: Þorgrímur Þráinsson
Bjarni Mark í leik með KA
Bjarni Mark í leik með KA
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Tímabili Bjarna Mark Duffield og félaga hans í Start lauk um helgina, en þó ekki eins og hann og liðsfélagar hans hefðu viljað. Liðið var dæmt úr leik eftir algert klúður hjá stjórnarmönnum félagsins.

Þannig er mál með vexti að Start, eins og mörg önnur félög í Noregi, spila á gervigrasi.

Búið er að leggja hitalagnir undir völlinn til að hægt sé að spila á honum allan ársins hring, en það er einmitt ástæða þess að Start mun ekki spila fleiri leiki.

Á laugardag átti Start að taka á móti Bryne í 1. umferð umspils um sæti í efstu deild. Á þriðjudeginum fyrir leik tók Terje Marcussen, framkvæmdastjóri félagsins, ákvörðun um að kveikja ekki á hitakerfinu, enda myndi það spara félaginu um 150 þúsund norskar krónur.

Sú ákvörðun reyndist algert klúður. Völlurinn var gaddfreðinn og sá dómari leiksins ekkert annað í stöðunni en að fresta leiknum.

Norska fótboltasambandið tók í kjölfarið ákvörðun um að dæma Bryne 3-0 sigur og var Start gert að greiða allan ferðakostnað fyrir Bryne og dómarateymið.

„Þetta passar því miður. Fyrstu viðbrögð eru smá tóm, það var hálftími í leik og ég því miður meiddur og ekki klár að spila leikinn, en að vonast til að detta inn í umspilið ef við myndum fara lengra. Allt í einu er tímabilið búið.“

„Hálftíma fyrir leik var völlurinn frosinn, sem við vissum í rauninni og það var tekin ákvörðun á þriðjudegi eða miðvikudegi að kveikja ekki á undirhitanum af því það var of dýrt og félagið í smá fjárhagserfiðleikum. Það var því tekin meðvituð ákvörðun af einhverjum í stjórninni að ekki kveikja og 'gamblað' á að allt myndi leysast en allt kom fyrir ekki og völlurinn var eins og búist var við, alltof harður.“


Kom það þér á óvart að leiknum var frestað og þið síðan dæmdir úr leik?

„Já, mjög. Ég hafði ekki einu sinni hugsað út í þann möguleika til að byrja með, en þegar þetta var allt lagt upp af hinu liðinu þá skildi maður ákvörðunina. Það var búið að seinka öllum öðrum leikjum og búið að senda okkur póst að það væri á okkar ábyrgð að hafa völlinn 'ready'. Ég skil þessa ákvörðun þó ég hefði óskað þess að leikurinn yrði spilaður.“

Hvernig er hljóðið hjá mönnum í félaginu eftir allt þetta?

„Það er slæmt. Klúbburinn er að fara í gegnum smá innanbúðar erfiðleika og þetta hjálpaði ekki neitt. Ég er búinn að fara á tvo fundi í dag og er að fara á tvo í viðbót. Nóg um að vera en við erum staðráðnir að þetta gæti verið byrjunin á að snúa blaðinu við, því við vitum hvar við eigum að vera.“

„Menn voru mjög reiðir. Það var fundur áðan þar sem kastað var út hreinskilnum spurningum og hvað manni finnst. Menn vildu svör og hvernig í ósköpunum þetta gat gerst. Menn voru mjög reiðir ég ætla ekki að leyna því.“


Félagið ætlar ekki að leita réttar síns í þessu máli og taka frekar ábyrgð.

„Nei, það er ekkert hægt að gera. Þetta er búið mál og búið að ákveða það. Nú er að horfa fram á við og taka ábyrgð, allir sem einn,“ sagði Bjarni við Fótbolta.net.

Æfðu á öðrum velli í vikunni

Leikmenn sáu í hvað stefndi í vikunni þegar liðið þurfti að æfa á öðrum velli. Var ekki til peningur til að kveikja á hitakerfinu?

„Það var alveg fjárhagslega hægt en hefði kostað klúbbinn mikið og meira en þeir áttu í raun efni á, en þeir gátu það og það hefði alltaf verið leyst. Það var einn einstaklingur sem segir af sér þegar ákvörðunin um að leikurinn verði ekki spilaður, kemur. Hann var búinn að segjast ætla að taka ábyrgð og þessu og tók ábyrgð á þeirri ákvörðun að kveikja ekki á hitanum þó hann hafi ekkert verið einn í því sennilega þá tók hann ábyrgð og sagði af sér.“

„Það var eiginlega í vikunni þar sem við þurftum að æfa annars staðar og það var alveg í hópnum og þjálfarateyminu að það væri ekkert hægt að spila á honum. Ég veit ekkert hvernig samskiptin voru þaðan og menn hafa treyst allt of mikið á að ekkert myndi gerast og það væri hægt að spila. Við erum með varavöll tveimur tímum frá og það er líka algert klúður að vera ekki búnir að bóka hann ef eitthvað skildi gerast. Það var farið að pæla í því að bóka hann eftir að ákvörðunin var tekin um að spila ekki leikinn og það var bara of seint. Stóru mistökin voru að taka ákvörðun um að kveikja ekki á hitanum og vera svo ekki klár með eitthvað miklu fyrr.“


Hann telur að Start hefði komið sér örugglega inn í aðra umferð umspilsins.

„Okkar á milli vorum við alltaf að fara vinna þennan leik ef ég leyfi mér að vera það viss. Við erum töluvert betri en þetta lið. Þetta er ekkert slæmt lið en í þriðju síðustu umferðinni mættum við þeim hér heima og unnum 2-0 frekar þægilega. Alltaf búist við að við myndum vinna þann leik, það er ekkert leyndarmál.“

Bjarni segist ekki finna fyrir fjárhagsvandræðum félagsins, nema kannski þegar það kemur að ferðalögum og öðru slíku.

„Nei, það er ekkert þannig að við séum ekki að fá launin okkar eða svoleiðis. Kannski smá varðandi ákvarðanatökur með ferðalög og annað slíkt, en alls ekki mikið. Held að þetta sjáist meira hærra uppi en niður flokka. Þeir eru búnir að vera góðir í að halda okkur eins 'professional' og hægt var og við viljum vera.“

Pirringurinn er mikill en menn hafa tekið heita fundi síðustu daga og sagt það sem þeim liggur á hjarta.

„Nei, hann er alls staðar. Það er mikill pirringur en planið er að leysa hann vonandi næstu daga. Þetta verður allt rætt og leyst.“

„Það var smá hiti áðan, ætla ekkert að ljúga því, en ekkert yfir grensuna. Ég ætla ekki að fara gera of mikið úr þessu, en eðlilega með það sem gerðist eru menn eitt stórt spurningarmerki og frekar pirraðir. Það væri ekki eðlilegt ef menn vildu ekki koma einhverju frá hjarta sínu, þannig eðlilegur pirringur myndi ég orða þetta,“
sagði hann í lokin um þetta mál.
Bjarni Mark: Hitafundir og mikil reiði
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner