Framkvæmdir á Laugardalsvelli eru nokkurn veginn á áætlun að sögn Kristins V. Jóhannssonar, vallarstjóra. Þeir aðilar sem vinna við framkvæmdirnar eru í jólafríi sem stendur og hefja svo störf að nýju eftir áramót.
Verið er að skipta um vallarflöt en fyrir um viku síðan var stór áfangi þegar búið var að setja hitalagnirnar undir en það á síðan eftir að tengja þær.
Verið er að skipta um vallarflöt en fyrir um viku síðan var stór áfangi þegar búið var að setja hitalagnirnar undir en það á síðan eftir að tengja þær.
Sett verður hybrid-gras, blanda af náttúrulegu grasi og gervigrasi, á völlinn til þess að hægt sé að spila á honum lengur. Þá verður vallarflöturinn færður nær aðalstúkunni og færist alls um 8 metra.
„Hann fer eins nálægt stúkunni og reglugerðir leyfa," segir Kristinn.
Hugmyndin er að vinna að endurbótum á Laugardalsvelli í ákveðnum skrefum og eftir að hybrid grasið verður komið á völlinn þá verða klefamál og stúkumál skoðuð.
Næsti heimaleikur Íslands, gegn Kosóvó í umspilinu um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar, verður leikinn erlendis vegna vallarmála hér á landi. Leikið verður á Estadio Enrique Roca í Murcia í marsmánuði.
Athugasemdir