Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 28. febrúar 2023 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
ÍBV og Stjarnan fá Drago stytturnar frá KSÍ
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Stjórn KSÍ er búin að samþykkja breytingu á háttvísisverðlaununum sem veitt eru á hverju ári. 


Drago stytturnar hafa verið afhentar til háttvísustu liða í tveimur efstu deildum karla undanfarna áratugi. Í ár var ákveðið að breyta fyrirkomulaginu og voru stytturnar veittar til háttvísustu liða í efstu deild karla og kvenna.

ÍBV fékk styttuna í Bestu deild kvenna á meðan Stjarnan fékk hana fyrir prúðmennsku í Bestu deild karla. 

Í Lengjudeildinni eru það Grindavík (kvk) og Fylkir (kk) sem hljóta háttvísisviðurkenningar á meðan Njarðvík og Ægir deila háttvísisviðurkenningu fyrir prúðmennsku í 2. deild karla. Hamar var prúðasta liðið í 2. deild kvenna.

Að lokum voru leikmenn Elliða prúðastir í 3. deild og leikmenn KFB í 4. deildinni.

Af vef KSÍ: Sagan á bak við Drago stytturnar
Árið 1975 gaf franskur knattspyrnuáhugamaður, Drago að nafni, KSÍ þessar styttur, en hann hafði þá þegar gefið sams konar styttur til 34 annarra landa í sama tilgangi, til að verðlauna knattspyrnulið fyrir heiðarleika og háttvísi. Albert Guðmundsson, fyrrverandi formaður KSÍ tók við styttunum frá Drago og kom þeim til KSÍ og þáverandi formaður KSÍ, Ellert B. Schram afhenti stytturnar í fyrsta sinn það ár.

Drago þessi, sem var fyrrum knattspyrnumaður sjálfur, var gullsmiður sem hafði byrjað fyrst á gerð verðlaunapeninga og merkja fyrir knattspyrnufélög en síðar snúið sér að gerð stærri verðlaunagripa. Honum hafði þótt nóg um hörkuna sem komin væri í knattspyrnuna og vildi með þessu framlagi sínu stuðla að betri og prúðmannlegri leik. Þessir gripir áttu sem sagt að verðlauna heiðarlega framkomu leikmanna og prúðmennsku áhorfenda. Þessi háttur væri til að mynda víða hafður á í Frakklandi og væri þá ýmist liðunum, eða borgunum sem liðin væri frá, veitt þessi viðurkenning.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner