sun 28. mars 2021 13:00
Ívan Guðjón Baldursson
Southgate styður Henry: Englendingar gætu sleppt samfélagsmiðlum
Mynd: Getty Images
Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, er hrifinn af ákvörðun Thierry Henry um að hætta á samfélagsmiðlum í mótmælaskyni við hversu illa gengur að hamla haturðsorðræðu.

Margir atvinnumenn í knattspyrnu lenda fyrir miklu níði og fordómum á samfélagsmiðlum. Þetta er eitthvað sem getur haft afar neikvæð áhrif á einstaklinga, sérstaklega ef þeir eru ungir og að stíga sín fyrstu skref í atvinnumennsku.

Stór hluti landsliðsmanna Englands hefur orðið fyrir kynþáttaníði, þar á meðal hinn 17 ára gamli Jude Bellingham sem leikur fyrir Borussia Dortmund.

Hugmyndin er sú að ef nægilega margir skrá sig af samfélagsmiðlum verði miðlarnir knúnir til að herða á eftirliti á hatursorðræðu.

„Fyrirtækin sem eiga miðlana eru ekki með stjórn á ástandinu og þar af leiðandi er mjög skiljanlegt að fólk vilji skrá sig af samfélagsmiðlum," sagði Southgate.

„Þetta er eitthvað sem allir atvinnumenn í knattspyrnu og aðrir áhrifavaldar ættu að íhuga alvarlega. Ekki bara þeir heldur líka venjulegt fólk, það er mikið af ungum krökkum sem verða fyrir ljótu níði á samfélagsmiðlum. Þetta er eitthvað til að hugsa um."

Ensku landsliðsmennirnir mega vera á samfélagsmiðlum en þeir eru í alvarlegum samræðum sín á milli um að loka alveg á samfélagsmiðla yfir EM.

„Ég reyni að loka á samfélagsmiðla þegar ég er með landsliðinu og ég hvet leikmenn til að íhuga það líka. Það getur verið mikilvægt fyrir andlegu hliðina."

Sjá einnig:
Henry hættir á samfélagsmiðlum
Athugasemdir
banner
banner
banner