'Það er svolítið dýrt fyrir lið sem er með fullt af leikmönnum sem eru frábærir í fótbolta og með mikla getu'
Arnar nefndi engin nöfn en áhorfendur deildarinnar vita að Tryggvi Hrafn getur gert betur en hann hefur sýnt.
Orri Sigurður skoraði sitt fyrsta mark í langan tíma gegn FH. Hann skoraði jöfnunarmarkið í leiknum, Valsarar komust yfir en FH náði að koma inn jöfnunarmarki.
„Leikurinn leggst vel í mig, allir leikir í þessari deild eru erfiðir, engir auðveldir leikir. Stjarnan er með flott lið, hafa verið að spila fínt, eru með marga góða fótboltamenn. Við þurfum að vera á okkar degi, þurfum að spila eins vel og við getum. Þá getum við sótt góð úrslit," sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, við Fótbolta.net í dag.
Valur tekur á móti Stjörnunni á N1 vellinum klukkan 18:00 á morgun.
Valur tekur á móti Stjörnunni á N1 vellinum klukkan 18:00 á morgun.
Valur spilaði á laugardaginn en Stjarnan átti leik á sunnudaginn. Heldur þú að það spili eitthvað inn í að þið fáið auka dag í hvíld fyrir leikinn?
„Ég vona að það skipti einhverju máli. Það er búið að spila þétt, bæði þessi lið spiluðu í bikarnum. Það er alveg álag á hópunum, ég finn það alveg á hópnum hjá okkur. Það er stundum munur á því hversu margir dagar eru á milli í hvíld, ég er allavega feginn að við fengum aukadag."
„Þú vilt spila marga leiki, fara langt í bikar og spila í Evrópu, en því fylgir leikjaálag."
Mikið álag en vilja það frekar en ekkert álag
Talandi um Evrópu, þetta er leikur sem er hluti af 14. umferð deildarinnar sem fer að mestu fram um miðjan júlí. Evrópuliðin fjögur spila á morgun svo það sé andrými í kringum leiki liðanna í 1. umferð forkeppnanna í Evrópu.
„Það er verið að reyna raða þessu upp svo að álagið sé minna í kringum 1. umferðina í Evrópu. En að því sögðu erum við að spila mjög þétt núna, þessi fjögur lið núna eru alvöru lið og stutt í næsta leik á eftir. Leikmenn munu alveg finna fyrir álaginu í þessari törn. Álagið er búið að vera mjög mikið, búnir með rétt um tvo mánuði af mótinu og erum bráðum að verða með hálft mótið. Þetta verður níundi deildarleikurinn okkar í deildinni, ansi mikið búið á stuttum tíma, alveg töluvert álag þegar bikarinn er með. Þetta er bara svona og við viljum frekar að þetta sé svona heldur en ekki."
„Í fyrra lentum við í því að við spiluðum ekki í talsvert langan tíma. Við spiluðum rosalega þétt á þessum tíma og við vorum óheppnir með að lenda á móti Blikunum, spiluðum færðan leik eins og er núna, nema þá vorum við ekki í Evrópu sjálfir. Eftir það vorum við í algjörri pásu. Nú er þetta skárra, öll fjögur liðin núna eru Evrópulið, í fyrra lentum við í því að þurfa spila þennan leik, en svo ekkert í kjölfarið því við vorum dottnir út í bikar og vorum ekki í Evrópu."
„Ég veit ekki hvort það sé betra að spila þennan leik fyrr eða seinna, þekki ekki álagið sem getur komið í kjölfarið, það fer eftir því hvað menn fara langt í Evrópu."
Erfitt að vinna ef grunnatriðin eru ekki í lagi
Í síðasta leik gerði Valur jafntefli gegn FH. Arnar fór aðeins yfir þann leik.
„Það sem var jákvætt var að við komumst í rosalega margar góðar stöður sem við áttum að gera miklu betur í. Svo er hitt, mér fannst FH vera ofan á, voru agressífari en við. Það er einn af grunnþáttum í fótbolta, það má ekki gerast. Þú verður alltaf að vera duglegur, hafa vilja til að hlaupa og berjast. Ef það er ekki til staðar, þá verður miklu erfiðara að vinna fótboltaleiki. Þetta eru hlutir sem þú gerir ráð fyrir að menn séu með. Kannski voru FH-ingarnir ferskari þarna, fengu hvíld þegar við áttum bikarleik, þeir voru grimmari en við. Þeir fengu kjaftshögg á móti KR, í fyrri hálfleik sérstaklega, ætluðu klárlega ekki að láta það gerast aftur."
25.05.2024 22:30
Addi Grétars: Með ólíkindum að Gylfi hafi ekki séð það
Risaákvörðun sem féll með FH
Arnar var spurður hvort hann horfi í dag öðruvísi á stóra atvik leiksins þar sem Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður FH, handlék boltann fyrir utan teig. Sindri slapp, dómararnir dæmdu ekkert.
„Ég sé þetta eins og ég gerði í augnablikinu og þegar ég ræddi þetta eftir leik, mér finnst þetta alveg klippt og skorið. Sindri stendur með vinstri löppina á línunni, aðeins inni í sínum vítateig, snýr á ská og er með höndina og hægri löppina fyrir utan."
„Mér finnst þetta vera það augljóst. Það eru fjórir dómarar. Við sáum þetta mjög skilmerkilega hjá okkur. Við erum með sama sjónarhorn og fjórði dómari. Þarna ertu með risaákvörðun. Ég skil alveg að menn missi af rangstöðu, þar sem einn er að hlaupa í aðra áttina og hinn í hina. Það er ógeðslega erfitt atriði að sjá. En við erum að sjá að menn eru farnir að tala saman þegar upp koma stór atvik, af hverju gátu menn ekki komið saman þegar boltinn fór út af og farið yfir hvað og hvernig þeir sáu hlutina?"
Hafa ekki gengið frá leikjunum
Stjarnan vann fyrri leik liðanna, 1-0 urðu lokatölur. Stóran hluta leiksins lék Valur manni færri.
„Mér fannst við spila þann leik mjög vel 11 á móti 11. Við vorum að vinna boltann á góðum stöðum og komum okkur í algjört dauðafæri. Það hefur verið svolítið með okkur að við höfum ekki alveg verið í 'clinical' gírnum. Við höfum verið í stöðum til að ganga frá leikjum en höfum ekki gert það og fengið jöfnunarmark á okkur; bæði á móti Fram og núna á móti FH. Við hefðum getað komið okkur yfir á móti Stjörnunni, mér fannst við vera sterkari; ofan á í fyrri hálfleik. Mér fannst við líka góðir í seinni hálfleik, vorum að koma okkur í góðar stöður, sérstaklega síðustu 25 mínúturnar."
„Ef þú gefur Stjörnunni smá tíma þá eru þeir alveg hörku fótboltalið, með marga frábæra unga stráka og geta spilað mjög skemmtilega. Þeir eru líka með markmann sem er mjög góður í fótbolta. Ég á frekar von á skemmtilegum leik."
Gylfi verður ekki með
Staðan á Valshópnum er ágæt segir Arnar, en Gylfi Þór Sigurðsson verður ekki með á morgun.
„Hann er allavega kominn í fótboltaskó og aðeins byrjaður að koma með okkur á æfingar. Það styttist í hann sem er jákvætt. Við ætlum að gefa honum aðeins meiri tíma til að ná sér."
„Menn eru aðeins aumir hér og þar, búið að vera mikið álag. Gísli (Laxdal) er að koma til baka eftir heilahristing. Við erum á ágætum stað miðað við hversu mikið búið er að spila."
Mega ekki lenda undir í baráttunni
Hvað þarf Valur að gera til að vinna Stjörnuna?
„Lykilatriðið er að verða ekki undir í baráttu og ákefð, við þurfum að vera agressífir og að vera þéttir. Svo þurfum við að nýta stöðurnar sem við komumst í, nýta þau færi sem við fáum og þegar við erum komnir í góðar stöður. Það eru einkenni góðra liða."
Eiga tvo gíra og menn inni
Gylfi Þór Sigurðsson er auðvitað frábær leikmaður og hefur leikið vel með Val í upphafi tímabils. Í kjölfar leiksins gegn FH var rætt um að Valur treysti of mikið á Gylfa, það hefði of mikil áhrif þegar Gylfi væri ekki með. Hvað finnst Arnari um það?
„Menn mega hafa sínar skoðanir, ég er bara ekki sammála því. Auðvitað söknum við Gylfa, það gefur auga leið."
„Við höfum bara ekki almennilega farið í gang. Það eru ákveðnir leikmenn, þeir vita það manna best sjálfir, sem eru kannski ekki alveg að finna sína bestu hliðar. Þeir eru að reyna en eru bara ekki alveg 'on it' þegar kemur að síðustu ákvörðun. Það er bara það sem skilur á milli, það sem vinnur leiki. Það hafa of margir leikmenn sem hafa ekki alveg náð að láta hlutina á sóknarþriðjungi smella."
„Í þeim leikjum sem við höfum tapað stigum höfum við verið í stöðum til að gera út um leiki en síðasta sending hefur klikkað. Það er svolítið dýrt fyrir lið sem er með fullt af leikmönnum sem eru frábærir í fótbolta og með mikla getu. Við sjáum það úti að leikmenn á hæsta getustigi nýta sína sénsa, gera meira úr hálffærum. Við erum með leikmenn sem eiga að geta gert meira úr þeim stöðum sem þeir hafa fengið. Við eigum menn inni, ég vil meina að við eigum inni tvo gíra. Því fyrr sem við komumst þangað, því betra."
Þegar Gylfi hefur ekki verið með, hefurðu íhugað að hafa Aron Jóhannsson framar á vellinum?
„Já og við höfum spilað með þá báða, Gylfa og Aron, fyrir framan djúpan. Aron spilaði á móti HK í fyrri hálfleik fyrir framan. Aron getur spilað báðar stöður, í grunninn er hann meiri sóknarmaður heldur en hitt. Hann er góður í fótbolta og getur leyst það að vera dýpri. Það er kostur að geta leyst bæði," sagði Arnar.
Athugasemdir