Liverpool hafnaði tilboði í Nunez og hefur áhuga á Tzimas - Chelsea hefur sett verðmiða á Nkunku - Rashford vill fara til Barcelona
   þri 29. ágúst 2023 17:35
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Kiddi Steindórs með rifinn liðþófa
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristinn Steindórsson, leikmaður Breiðabliks, er með rifinn liðþófa. Þetta sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, við Fótbolta.net í dag.

„Hann fór í myndatöku og í ljós kom að hann er með rifinn liðþófa. Kiddi fór í sprautu í morgun og við sjáum hvernig hann tekur við henni. Vonandi verður hann ekki lengi frá, en það er ómögulegt að segja," sagði Óskar þegar hann var spurður út í stöðuna á hópnum fyrir leikinn mikilvæga á fimmtudag.

Kiddi fer í sprautu í þeirri von að hann geti eitthvað spilað á komandi vikum en Blikar vonast til þess að komast í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar með sigri eða jafntefli gegn Struga á fimmtudag. Ef sigur vinnst þar þá á Breiðablik tólf leiki eftir á tímabilinu.

Kiddi þarf að hvíla eftir sprautuna og missir af leiknum á fimmtudag og leik Breiðabliks gegn FH á sunnudag í Bestu deildinni. Ef vel tekst til þá gæti hann hins vegar spilað eitthvað í kjölfarið.

Hann er 33 ára fjölhæfur leikmaður sem leyst hefur stöðu fremsta manns og einnig spilað úti vinstra megin á tímabilinu. Hann hefur komið við sögu í átta deildarleikjum í sumar og öllum Evrópuleikjunum til þessa. Hann hefur skorað eitt mark og lagt upp fjögur.

Leikurinn gegn Struga er seinni leikur liðsins í umspili um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Breiðablik leiðir með einu marki eftir sigur síðasta fimmtudag í Norður-Makedóníu.

Flestir aðrir í leikmannahópi Breiðabliks eru klárir í slaginn. Patrik Johannesen er frá út tímabilið og þá er félagið að selja Ágúst Orra Þorsteinsson til Genoa á Ítalíu.
Innkastið - Listrænn gjörningur
Athugasemdir
banner
banner
banner