Man Utd tilbúið að hlusta á tilboð í Rashford og Martínez - Arteta vill Vlahovic - Ashworth gæti tekið til starfa hjá Arsenal
   þri 29. ágúst 2023 13:09
Innkastið
„Þá fer næsta leikrit af stað og símatími hefst í Kópavogi“
Breiðabliksliðið mætti í rútu 20-25 mínútum fyrir leik.
Breiðabliksliðið mætti í rútu 20-25 mínútum fyrir leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks var meðal þeirra leikmanna sem voru hvíldir.
Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks var meðal þeirra leikmanna sem voru hvíldir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Hrafn eftir leikinn.
Óskar Hrafn eftir leikinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atburðarásin í kringum leik Víkings og Breiðabliks á sunnudaginn hefur verið til umræðu á flestum kaffistofum landsins. Breiðablik hafði reynt að fá leiknum frestað en án árangurs.

Þegar um 20-25 mínútur voru í leik mætti Blikaliðið í rútu á leikstað en þá voru farnar af stað vangaveltur um hvort það myndi hreinlega ekki mæta í leikinn.

Blikar mættu tilbúnir út úr rútunni og fóru ekki inn í klefann í Fossvoginum. Í Innkastinu var talað um þetta sem 'listrænan gjörning' Óskars Hrafns Þorvaldssonar þjálfara liðsins. Tómas Þór Þórðarson segir í þættinum að hann hafi ekki á neinum tímapunkti talið að Breiðablik myndi ekki mæta í leikinn.

„Ég hélt það ekki í eina sekúndu. Eru viðurlögin við því ekki allt að því að vera reknir úr mótinu? Að mæta ekki til leiks er eitt það alvarlegasta sem getur gerst. Það var aldrei séns að þeir myndu ekki mæta til leiks. Þeir sinntu á endanum öllum sínum skyldum, fylltu út skýrslu, spiluðu leikinn og komu í viðtöl. Þeir skildu engan eftir í rykinu, þeir gerðu allt sem þeir áttu að gera en listrænn gjörningur er mjög vel orðað," segir Tómas.

Er enn að reyna að púsla því saman hver tilgangurinn var
„Ég held að séu allir sammála um að þetta var fáránlegt. Þetta var óvirðing við mótið, óvirðing við andstæðing, óvirðing við sjónvarpið, þeir voru bara sjálfum sér til skammar. Þetta er þeirra ákvörðun og þeir gerðu þetta svona, allt í góðu. En hver tilgangurinn var, er ég enn að reyna að púsla því saman."

Í þættinum var velt því fyrir sér hver skilaboðin frá Breiðabliki væru.

„Það liggur beint við að Blikar vildu ekkert spila þennan leik, þeir eru að fara að spila þennan mikilvæga leik á fimmtudaginn og reyndu ítrekað alla helgina að fá þessum leik frestað. Maður hugsaði að þetta væri gjörningur til að mótmæla því að þessi leikur færi fram. Þeir mættu í þennan leik eins og þeir væru að fara að keppa á krakkamóti á Akranesi," segir Elvar Geir í þættinum og Tómas heldur áfram:

„Það voru allir að reyna að ráða í hverju þeir voru að mótmæla. Var þetta gjörningur því KSÍ hjálpaði þeim ekki? Voru þeir að gefa skít í Víking fyrir að hafa ekki gengið að þeirra kröfum og spilað þennan leik í landsleikjafríinu? Það virtist líklegra miðað við viðtalið fyrir leik að það væri Víkingur. Eftir leik talar Óskar um að þeir vildu eyða meiri tíma í Kópavogi, sem er algjör þvæla sem var líka búið að skrifa ofan í þá leikmenn sem fóru í viðtal eftir leik," segir Tómas.

Segja að klefinn hafi ekki verið boðlegur fyrir Blika
Í gær var svo skyndilega komin önnur skýring, sem kom fram í Stúkunni á Stöð 2 Sport og einnig í Þungavigtinni. Þá var komin sú saga að útiliðaklefinn í Fossvoginum væru ekki Blikum boðlegur og því hafi liðið ákveðið að gera sig klárt í Kópavogi. Tómas telur að þessi skýring komi beint frá Óskari.

„Síðan vaknaði Óskar í gærmorgun og fattaði að hann kom þessu kannski ekki nægilega vel frá sér. Þá fer næsta leikrit af stað og símatími í Kópavogi hefst. Gummi Ben er mættur með það í Stúkuna að hann hafi heyrt það fyrir löngu að Blikar hafi ekki ætlað að mæta í klefann í Víkinni því það var ekki rafmagn í honum þann 16. maí 2022. Detti mér allar dauðar lýs af höfði, er Kristján Óli ekki með sömu sögu, sama kvöld," segir Tómas.

„Óskar afvegaleiddi umræðuna enn frekar og skyndilega var klefinn ekki boðlegur. Ég ætla rétt að vona að fólk hafi fattað hvað var í gangi því línan var svo sannarlega laus í Kópavogi í undirbúningi fyrir þætti gærkvöldsins."

„Af hverju sögðu þeir þetta ekki bara frá þessu í viðtölum eftir leik? Af hverju er þetta skyndilega komið í fjölmiðla daginn eftir?" veltir Elvar fyrir sér.

Eina rétta að hvíla menn
Í Innkastinu segir Sæbjörn Steinke að hann telji að Óskar hafi verið að leiða umræðuna frá sjálfum fótboltanum. Breiðablik hvíldi marga lykilmenn enda er seinni leikurinn gegn Struga í umspili Sambandsdeildarinnar í Kópavoginum á fimmtudag. Sigur Breiðabliks eða jafntefli kemur liðinu í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.

Talað er um að Óskar hafi gert það eina rétta með því að tefla fram veikara liði í þessum leik á sunnudaginn enda mikilvægi komandi leiks gegn Struga gríðarlegt.

Víkingur vann Breiðablik 5-3 á sunnudag og er nú með fjórtán stiga forystu í Bestu deildinni, átján stiga forystu á Breiðablik sem er í þriðja sætinu.
Innkastið - Listrænn gjörningur
Athugasemdir
banner
banner
banner