Real Madrid vill tvo leikmenn Chelsea - Man Utd hefur áhuga á Vlahovic - Bernardo Silva íhugar að fara til Sádi-Arabíu næsta sumar
banner
   mán 29. september 2025 16:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Fær sérstakt hrós frá þjálfaranum - „Þessir spámenn þekktu einfaldlega ekki liðið"
Hornfirðingarnir Alex Freyr Hilmarsson og Hermann hafa hjálpað ÍBV að vera í þessari stöðu þegar þrjár umferðir eru eftir.
Hornfirðingarnir Alex Freyr Hilmarsson og Hermann hafa hjálpað ÍBV að vera í þessari stöðu þegar þrjár umferðir eru eftir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Meira að hlaupa afturfyrir varnir og var ofar á vellinum'
'Meira að hlaupa afturfyrir varnir og var ofar á vellinum'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hermann og Sverrir fengu sérstakt hrós frá Láka eftir leik.
Hermann og Sverrir fengu sérstakt hrós frá Láka eftir leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hermann Þór Ragnarsson átti frábæran leik þegar ÍBV vann öruggan 5-0 útisigur á Vestra í gær. Hermann skoraði þrennu í leiknum, hans fyrstu þrennu á meistaraflokksferlinum.

Eftir leik hrósaði Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV, Hermanni fyrir tímabilið. Hann varð mikilvægari hlekkur í liðinu eftir að Omar Sowe og Oliver Heiðarsson meiddust með skömmu millibili snemma móts. Omar spilar ekki meira á þessu tímabili og Oliver var frá í um tvo mánuði. Þá hefur Bjarki Björn Gunnarsson verið að glíma við meiðsli.

„Þetta var frábær dagur og gríðarlega mikil vinna hjá okkur í sumar sem er að skila sér. Þessir leikmenn sem við misstum. Bjarki Björn, Omar Sowe og Oliver í tvo mánuði og tókum enga sóknarmenn í staðinn. Þó maður vilji ekki vera nafngreina menn þá held ég að Hermann Þór Ragnarsson og Sverrir Hjaltested hafi hjálpað okkur hvað mest. Það er ekki oft sem þú missir þrjá frábæra sóknarmenn á einu bretti," sagði Láki við Vísi eftir leikinn.

Hermann ræddi við Fótbolta.net. Þar sem ÍBV er einungis einu stigi frá því að halda sér uppi í Bestu deildinni, þvert á flestar spár, þá var hann spurður út í spána og hvernig Eyjamenn hafa tæklað tímabilið.

„Það að okkur var spáð falli kannski skiptir ekki öllu máli þar sem þessir spámenn þekktu einfaldlega ekki liðið sem við erum með," segir Hermann.

„Stemningin hjá hópnum með stöðuna er góð, það var auðvitað svekkelsi að ná ekki topp sex en við pælum ekki í því í dag og einbeitum okkur að klára neðri sex sem best."

En hvernig sér Hermann sitt tímabil?

„Ég persónulega hefði alveg verið til í að vera búinn að skila meira frá mér, en ég átti erfitt í byrjun móts með að koma mér í færi og fannst ég ekki taka nóg þátt í sóknarleiknum. Mér finnst ég vera farinn að gera það mikið meira núna."

„Nálgunin breyttist kannski aðallega fyrir mig þegar Olli (Oliver) datt út því þá var ég færður fram með Sverri í 4-4-2 og mér finnst við báðir góðir að verjast og ég var þá meira að hlaupa afturfyrir varnir og var ofar á vellinum. Mér fannst ég ekkert vera fá neina meiri ábyrgð þannig séð eða ég fann allavega ekkert fyrir því frá Láka, aðalmunurinn var kannski að ég var ofar á vellinum sem var næs."

„Mín besta staða er líklega á vinstri væng eða frammi í tveggja framherja kerfi."

„Ég var ekki með neitt sérstakt markmið fyrir mót þar sem ég var meiddur allan veturinn en mig langaði að skora meira en 2023 og mig langaði líka svakalega að ná að leggja upp þar sem ég gat ekki gert það 2023,"
sagði Hermann sem er kominn með sex mörk og eina stoðsendingu í sumar.

Hann er í námi í höfuðborginni, er að læra sjúkraþjálfun, og er því ekki í Eyjum yfir lokakafla tímabilsins. Í aðdraganda leiksins gegn Vestra æfðu Eyjamenn í borginni með Fram.
Athugasemdir
banner