Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fös 30. apríl 2021 19:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Hægt að gera ýmislegt þrátt fyrir að vera lítið félag"
Lengjudeildin
Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu.
Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Grótta var í fallsæti í fyrra þegar mótið var blásið af.
Grótta var í fallsæti í fyrra þegar mótið var blásið af.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Úr æfingaleik gegn Víkingi Ólafsvík á dögunum.
Úr æfingaleik gegn Víkingi Ólafsvík á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Chris Brazell.
Chris Brazell.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Hákon Rafn Valdimarsson.
Hákon Rafn Valdimarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Hvar endar Grótta í sumar?
Hvar endar Grótta í sumar?
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
'Við erum með okkar markmið; við ætlum að berjast um að vera eitt af þessum tveimur liðum sem fer upp.'
'Við erum með okkar markmið; við ætlum að berjast um að vera eitt af þessum tveimur liðum sem fer upp.'
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
„Maður virðir skoðanir fyrirliða og þjálfara mótherjanna. Þetta er þeirra skoðun, að við verðum í fimmta sæti," segir Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu, í samtali við Fótbolta.net.

Gróttu er spáð fimmta sæti í Lengjudeildinni í sumar af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar.

„Við erum sjálfir með önnur markmið, að sjálfsögðu. Þetta kemur mér smá á óvart, í ljósi þess að við vorum að spila í deild þeirra bestu í fyrra. Það er ekki oft þar sem lið er 'dæmt niður', að þeim sé spáð fimmta sæti. Við virðum þessa spá en við erum með önnur markmið."

Góð reynsla
Ágúst tók við Gróttu í fyrra, en þar áður þjálfaði hann Breiðablik og Fjölni við góðan orðstír. Hann steig inn í félagið eftir að liðið hafði komist upp um tvær deildir á tveimur árum; frá 2. deild og upp í úrvalsdeild.

Grótta var í næst neðsta sæti í fyrra, níu stigum frá öruggu sæti í fyrra þegar mótið var blásið af. Fjórir leikir voru eftir óspilaðir. Félagið er ekki með mikla reynslu úr efstu deild í fóbolta en Ágúst telur að reynslan hjálpi mikið.

„Ég horfi mest á það þannig að þetta hafi verið ákveðin vegferð sem félagið var að ganga í gegnum. Við fengum reynslu af efstu deild og umgjörðin í kringum félagið hefur bæst við það. Það er mikið af góðu fólki á Nesinu sem vann frábært starf í kringum félagið; stúkan var stækkuð og það var mikið af góðum umbreytingum fyrir félagið í heild sinni," segir Ágúst.

„Ef maður horfir á þetta íþróttalega, þá var umgjörð leikmanna stórbætt. Þetta er eitthvað sem mun hjálpa okkur í 1. deildinni á þessu ári. Líka varðandi liðið, þá er þetta svipaður hópur sem við erum að stilla upp. Við teflum fram svipuðum hóp. Félagið er að þroskast, þetta hefur hjálpað félaginu gríðarlega mikið og samfélaginu á Nesinu að fá að spila í deild þeirra bestu. Það sem ég er að reyna að segja er að þetta hefur gert gott - við munum hagnast á því í sumar að hafa spilað í efstu deild."

Hann kveðst hafa lært mikið á síðasta ári þegar hann stýrði Gróttu í deild þeirra bestu á Íslandi.

„Ég er með mikla reynslu sem leikmaður og þjálfari. Þetta var verkefni sem er öðruvísi en ég hef verið með áður. Ég lærði mikið af þessu ári. Mér fannst mjög spennandi að taka við Gróttuliðinu í þeirri stöðu sem þeir voru í og glíma við bestu lið landsins. Það þroskaði mig sem þjálfara og félagið í heild sinni. Mér var tekið rosalega vel inn í Gróttu og það er alltaf tekið vel á móti manni þegar maður mætir á Nesið."

„Nú snýr annað við, núna er Grótta komin í 1. deild aftur. Við þekkjum sigurtilfinninguna og vitum hvað var gaman að vinna Lengjudeildina fyrir tveimur árum."

Samstilltur hópur og mikil liðsheild
Grótta mætir með nánast sama lið til leiks og í fyrra, og hefur liðið lítið breyst á síðustu árum þegar uppgangurinn hefur verið mikill.

„Það góða við þetta er að þetta er sami mannskapur og fór upp úr 2. deild, fór upp úr 1. deild og var í úrvalsdeild. Þetta er mjög samstilltur hópur og mikil liðsheild. Það eru mestu styrkleikar okkar, það er liðsheild og samheldni. Að vera með sama hópinn, það er mjög gott á meðan önnur lið eru að safna til sín leikmönnum. Það þarf að byggja liðin meira þar upp."

„Leikmenn verða einu ári eldri. Við vorum með mjög ungt lið fyrir tveimur, þremur árum. Þeir eru enn ungir þessir strákar en þeir eru einu ári eldri en í fyrra og reynslunni ríkari."

Vilja stjórna leikjum
Þegar Grótta fór upp úr Lengjudeildinni sumarið 2019 þá spilaði liðið sóknarbolta og stjórnaði leikjum. Það var aðeins breyting á í fyrra þegar Grótta mætti mun sterkari mótherjum. Í vetur hefur liðið verið að þróa nýjan leikstíl.

„Við erum með aðeins aðrar áherslur í leikskipulagi frá því í fyrra. Við erum búnir að ná góðum úrslitum í vetur og vor. Vð förum inn í mótið með miklu sjálfstrausti og þetta verður mjög skemmtilegt held ég. Þetta er bara gaman."

„Við höfum farið aðeins og rýnt meira í taktíkina. Við höfum verið að skapa okkur fleiri færi núna í þessum undirbúningsleikjum, frá því við spiluðum í fyrra. Við viljum stýra leikjum, eitthvað sem við gerðum lítið af í Pepsi Max-deildinni. Við höfum verið að spila við lið úr efstu deild í vetur og vor og höfum náð að stýra bróðurparti leikjanna. Það er eitthvað sem hentar okkur. Það er það sem við viljum gera," segir Ágúst.

Heillar unga leikmenn að koma á Nesið
Það hafa orðið breytingar í þjálfarateymi Gróttu fyrir þetta tímabil. Guðmundur Steinarsson og Þorleifur Óskarsson hverfa á braut.

„Við breyttum aðeins í þjálfarateyminu. Þorleifur Óskarsson og Guðmundur Steinarsson voru með okkur í fyrra og gerðu vel. Þeir eru frábærir félagar og þekkja fótbolta út og inn. Chris Brazell kemur nýr inn í teymið, hann er breskur þjálfari," segir Ágúst en Chris hefur starfað hjá Gróttu síðustu ár.

„Hann var yfirþjálfari hjá okkur og er á svæðinu allan daginn. Það er hægt að nálgast hann allan daginn fyrir aukaæfingar, greiningar og fleira. Hann er týpískur breskur þjálfari og kemur gríðarlega vel inn í teymið. Umgjörðin hefur aukist, við erum með Þór Sigurðsson sem styrktarþjálfara og Gísli Einarsson er markvarðarþjálfari. Leikmennirnir fá mjög góða umönnun."

„Við höfum verið að fá til okkar unga leikmenn úr stærri félögum því þeir hafa heyrt að það er vel staðið að öllu á Nesinu. Við viljum vera þarna; að fá til okkar unga og efnilega leikmenn sem geta blómstrað hjá okkur ásamt því að vera með okkar leikmenn sem hafa verið hér í ákveðinn tíma. Við höfum átt gott samstarf til að mynda við KR. Það eru margir strákar hérna fæddir 1998, 99 og 2000 sem hófu yngri flokka ferilinn með KR og hafa komið til okkar. Liðið er að hluta til byggt upp á þeim ásamt okkar uppöldu leikmönnum og þessum ungu strákum sem koma úr öðrum stórum félögum í kringum okkur. Þetta er það sem við sjáum fyrir okkur, að þetta sé okkar skipulag."

„Við viljum byggja þetta á þessum ungu strákum og leikstíllinn hentar fyrir það. Við viljum fá unga, spræka leikmenn sem eru tilbúnir að hlaupa og tilbúnir að bæta sig sem leikmenn. Við erum í gríðarlega góðu formi, allir sem einn. Covid hefur gert það að verkum að við erum búnir að hlaupa mikið, og mikið án bolta. Að mínu mati ættu liðin að vera í góðu standi og eiga að geta hlaupið mikið. Það verður mikið tempó og þetta verður skemmtileg deild," segir Gústi.

Sem betur fer farið aftur af stað
Íþróttaárið í fyrra litaðist mikið af Covid pásum og stoppum. Það kom þannig stopp á íþróttalífið fyrir nokkrum vikum síðan en það er sem betur fer komið aftur af stað.

„Það hefur gengið mjög vel í vetur og við erum sáttir við veturinn, sáttir við spilamennskuna og hvað við höfum lagt í þetta. Auðvitað setti það strik í reikninginn þegar það kom Covid pása. Sem betur fer er þetta farið aftur af stað núna. Árið í fyrra var frekar vont fyrir íþróttalíf. Við lentum vel í því að þurfa að kljást við það; leikmenn, þjálfarar, stuðningsfólk og fleiri. Sem betur fer er þetta farið aftur af stað og núna er þetta handan við hornið. Það er mikil tilhlökkun að hefja mótið, að geta farið út og sýnt það sem við höfum verið að vinna að í vetur."

Þjálfari Gróttu er sáttur við hópinn sinn. „Hópurinn er góður eins og hann er. Ef það koma einhverjir leikmenn sem eru tilbúnir að koma til okkar á láni frá öðrum félögum sem geta nýst okkur, þá erum við alltaf með augun opin. En við erum sáttir við hópinn eins og hann er annars."

Saga Hákons einstök
Það var tilkynnt í dag að Grótta væri búið að selja markvörðinn Hákon Rafn Valdimarsson til Elfsborg í Svíþjóð. Hann mun fara þangað í sumar en byrjar tímabilið með Gróttu.

Hákon er 19 ára gamall en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann verið aðal­markvörður Gróttu und­an­far­in þrjú tímabil. Hákon spilaði sinn fyrsta leik fyrir Gróttu árið 2017 en hann á að baki 61 leik fyrir félagið og hefur leikið í þremur efstu deildum með liðinu. Gústi telur að saga markvarðarins efnilega sé einstök.

„Hákon verður með okkur fram í júlí. Hans saga hefur verið með ólíkindum. Þetta er einstakt með svona ungan markvörð. Hann var 15-16 ára þegar hann var að spila í 2. deild með Gróttu og var svo að spila í 1. deild, og spilaði náttúrulega í úrvalsdeild í fyrra. Hann er með einhverja 70-80 leiki í meistarflokki."

„Ég hef talað við markvarðarþjálfarann hjá Elfsborg og við erum sammála um að þótt hann sé ungur í aldri þá er hann ekki ungur sem markvörður. Hann er kominn með gríðarlega reynslu. Hann er tvítugur og með alla þessa reynslu. Þetta er einsdæmi myndi ég halda, alla vega mjög fáheyrt. Hann er frábær íþróttamaður sem ætlar að ná langt. Ég hef fulla trú á því að hann verði enn betri þegar hann er kominn út og hefur sinn atvinnumannaferil."

„Við Íslendingar erum með frábæra unga markverði eins og Patrik og Elías út í Danmörku. Þessir strákar upplifðu aldrei það sama og Hákon hér heima, að hafa spilað í 2. deild, 1. deild og úrvalsdeild og ekki orðnir tvítugir. Þetta gæti verið heimsmet, það þarf að grafa það upp. Við erum mjög stoltir af Hákoni og að hann hafi farið þessa leið með Gróttu. Hann er gríðarleg fyrirmynd, það má ekki gleyma því. Líka bara fyrir það hvernig við erum að gera þetta. Það má líka segja það um Orra Óskarsson sem fer þessa sömu leið og er núna að spila fyrir eitt stærsta félag Norðurlanda (FCK) og er að standa sig frábærlega. Hann kemur úr unglingastarfi Gróttu og Hákon kemur úr unglingastarfi Gróttu."

„Við erum með fleiri stráka, til að mynda Kjartan Kára Halldórsson sem er fæddur 2003. Það er hægt að gera ýmsa hluti þrátt fyrir að vera lítið félag. Það er mikilvægt að vera með stórt hjarta."

Markmiðið
Ágúst fékk að lokum spurninguna klassísku: 'Hvað er markmiðið í sumar?'

„Við erum með okkar markmið; við ætlum að berjast um að vera eitt af þessum tveimur liðum sem fer upp. Við ætlum að gera betur en í fyrra. Við ætlum að reyna að fara upp. Með okkar liðsheild og vilja þá erum við sannfærð um það í félaginu að við getum það," segir Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu á Seltjarnarnesi.
Athugasemdir
banner
banner
banner