Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   sun 30. apríl 2023 19:44
Ívan Guðjón Baldursson
Klopp um Tierney: Veit ekki hvað hann hefur á móti okkur
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

Jürgen Klopp var kátur eftir dramatískan 4-3 sigur Liverpool gegn Tottenham en tók sér tíma til að ræða um rifrildi sín við dómarateymi leiksins. Paul Tierney var skráður sem dómari leiksins og hefur Klopp áður kvartað undan honum.


Klopp var ósáttur þegar Tierney gaf Tottenham aukaspyrnu á lokakafla leiksins sem endaði með marki og hleypti hann reiðinni út seint í uppbótartíma, þegar Diogo Jota gerði sigurmark Liverpool. 

Klopp spretti þá að fjórða dómara leiksins og fagnaði í andlitið á honum, en fékk það strax í bakið þegar hann meiddist aftan í læri við fagnaðarlætin. TIerney dómari gaf Klopp gult spjald fyrir fagnaðarlætin.

„Við eigum okkar sögu með Tierney, ég skil ekki hvað hann hefur á móti okkur. Hann hefur sagt að það séu engin vandamál en það getur ekki verið satt. Ég skil ekki hvernig hann horfir á mig. Þetta er mjög skrýtið og erfitt að skilja. Það sem hann sagði við mig þegar hann gaf mér gula spjaldið er ekki í lagi," sagði Klopp þegar hann var spurður út í fagnaðarlætin og gula spjaldið.

„Ég er ekki viss hversu alvarleg meiðslin eru en þetta er greinilega refsing fyrir að haga mér ekki eins og ég ætti að gera. Ég sneri mér við til að fagna vegna þess að fjórði dómarinn var ekki búinn að gera neitt rangt. Ég sagði ekkert slæmt en ég gaf honum slæmt augnaráð og á því andartaki fann ég fyrir sársauka."

Saga Tierney og Klopp nær aftur um nokkur ár og rifjaði BBC nokkur atvik upp. Í 2020 viðurkenndi Tierney að hafa misst af broti á Georginio Wijnaldum í leik gegn Aston Villa. Klopp var ósáttur og svaraði Tierney honum með að segja honum að hann þyrfti nú „að komast yfir þetta"

Ári síðar labbaði Klopp upp að Tierney til að segja við hann: „Ég hef ekkert á móti neinum dómurum, bara þér."

Í janúar tapaði Liverpool svo gegn Brentford og sagðist Klopp hafa reynt að tala við dómarateymið, sem innihélt meðal annars Paul Tierney, að leikslokum. „Ég fékk nákvæmlega það sama úr þeim samræðum og ef ég hefði rætt við örbylgjuofninn minn. Ég fékk ekkert raunverulegt svar, þetta er alltaf sama sagan."

Fyrr í þessum mánuði fékk Andy Robertson svo gult spjald þegar hann kvartaði í Tierney útaf olnbogaskoti sem hann fékk frá Constantine Hatzidakis, aðstoðardómara leiksins.

Þetta var mikilvægur sigur fyrir Liverpool sem er komið uppfyrir Tottenham og í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner