Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 30. maí 2023 11:06
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Óli Stefán mætir aftur til starfa - Þakkar fyrir ómetanlegan stuðning
Óli Stefán Flóventsson.
Óli Stefán Flóventsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Sindra og KV um helgina.
Úr leik Sindra og KV um helgina.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Óli Stefán skrifar annan pistil sem hann birti í dag.
Óli Stefán skrifar annan pistil sem hann birti í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óli Stefán Flóventsson var ekki á skýrslu þegar Sindri heimsótti KV í 2. deild karla í hádeginu á laugardag en hann var samt sem áður mættur á leikinn að styðja sína menn. Óli Stefán segir í pistli í dag að hann ætli að halda áfram þjálfun Sindra.

Óli Stefán ritaði pistil á Facebook í síðustu viku þar sem hann greindi frá því hann væri kominn í leyfi frá störfum sínum hjá félaginu. Hann er að hugsa stöðu sína hjá Sindra en hann gagnrýndi bæjarfélagið fyrir að styðja ekki nægilega vel við bakið á félaginu.

„Sem þjálfari knattspyrnuliðs Sindra hef ég reynt nánast allt til að benda á þá ömurlegu stöðu sem við búum við hér á okkar svæði þegar kemur að umgjörð og stuðning við starfið út frá okkar forsendum hér á Höfn í Hornafirði... Að líða eins og maður sé alltaf fyrir eða eins og starfið sé graftarkýli á bæjarfélaginu er ekki góð tilfinning fyrir hvaða starfsmann í hvaða starfstétt sem er, en nákvæmlega þannig líður mér í dag," skrifaði Óli Stefán í pistli sínum og gagnrýndi aðstöðuleysið sem Sindri býr við.

Var mættur á leikinn
Óli Stefán var í leyfi og var hann ekki á skýrslu í Vesturbænum á laugardag en hann var samt sem áður mættur á leikinn að styðja við bakið á sínum mönnum. Rætt var um þetta í Ástríðunni.

„Hann var ekki á skýrslu en var samt mættur. Er það ekki áhugavert? Hann er hættur sem þjálfari liðsins, allavega tímabundið. Hann býr á Höfn en gerir sér ferð í bæinn til að fylgjast með leiknum," sagði Sverrir Mar Smárason en það var greinilega erfitt fyrir Óla að draga sig frá liðinu sem hann er búinn að vera að vinna með.

Mun halda störfum áfram
Óli Stefán skrifar í dag annan pistil á Facebook þar sem hann greinir frá því að hann ætlar að halda áfram þjálfun Sindra. Hann þakkar fyrir stuðning eftir skrif sín á dögunum. „Ég vil byrja á því að þakka fyrir ómetanlegan stuðning í gegnum mikla erfiðleika síðustu vikuna. Mér hafa borist ótrúlegar kveðjur úr öllum áttum sem hafa styrkt mig mikið," skrifar Óli.

„Að finna vanmátt og upplifa andlega þreytu getur tekið á. Ég hef sem betur fer mikinn stuðning úr nærumhverfinu og ég hef frábær andleg verkfæri í höndunum sem ég kann að nota til að stilla mig af. Að stíga eitt skref til baka, ná hugarró og einbeita mér svo að því sem ég sjálfur get stjórnað hefur hjálpað mér mikið síðustu daga."

Óli Stefán, sem vakti mikla athygli með skrifum sínum í síðustu viku, heldur svo áfram og skrifar: „Styrkir í öflugt íþróttastarf á alltaf að horfa á sem fjárfestingu en ekki ölmusu."

„Ég hef átt mjög gott samtal við stjórn knattspyrnudeildar og framkvæmdastjóra Sindra, sem hafa sýnt mér einstakan stuðning í gegnum þennan tíma. Við vorum sammála því að ég einbeiti mér nú að því dýrmætasta við starfið, sem er unga fólkið okkar sem vill stunda íþróttina sína."

„Samningur minn við Sindra rennur út í haust og þá er rétti tíminn til að skoða framtíðina."

„Ég mun því halda störfum áfram frá og með deginum dag. Fókusinn fer núna algjörlega á þjálfunina og ég mun gera allt til þess að umgjörð í kringum unga fólkið okkar verði eins góð og kostur er, út frá því sem við höfum. Að lokum vil ég segja þetta. Á Höfn er heilt yfir mjög gott að búa. Hér er öflugt og gott atvinnulíf og mikið líf í kringum ferðaþjónustu allt árið um kring. En fyrst og síðast er hér ótrúlega gott og duglegt fólk sem myndar samfélag sem gott er að búa í. Með skrifum mínum var aldrei ætlun mín að gera lítið úr samfélaginu í heild og biðst ég afsökunar ef svo hefur verið. Það er alls ekki sanngjarnt að dæma heilt samfélag út frá minni skoðun á virði og mikilvægi íþrótta."

Óli Stefán kom Sindra upp úr 3. deild í fyrra en liðið er með fjögur stig í níunda sæti eftir fjóra leiki.

Hægt er að lesa pistil Óla Stefáns í heild sinni með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan þar sem hann skrifar meira um manneskjuna á bak þjálfarann og það eigi að taka alvarlega þegar þjálfari stígur fram og lýsir slæmu starfsumhverfi og andlegri þreytu sinni.

Sjá einnig:
Bæjarstjórinn svarar pistli Óla: Starf Sindra er okkur ómetanlegt


Ástríðan 4. umferð - Víðir með fullt hús og KF enn án stiga
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner