Stuðningsmenn Atletico Madrid eru ekki sáttir með nýja treyju félagsins fyrir komandi leiktíð og hefur það verið áberandi í treyjusölum félagsins.
Þetta er í fyrsta sinn í sögu Atletico sem félagið spilar með bognar línur á treyjunni og segja stjórnendur að treyjusölur hafi fallið um 40% frá því í fyrra. Þeir segjast ekki vera hissa á þessum tölum eftir slæm viðbrögð stuðningsmanna þegar treyjan var fyrst kynnt fyrir almenningi fyrr í sumar.
Það er ekki til nægilega góð tölfræði fyrir það en spænskir fjölmiðlar halda því fram að þetta sé minnst selda treyja í sögu Atletico.
Það eru ekki bara treyjusölur sem hafa lækkað í kjölfarið heldur einnig sölur á öðrum vörum merktum Atletico Madrid. Þetta er ákveðinn skellur fyrir félagið eftir afar vel heppnaða treyju sem var gefin út í vor í tilefni af 75 ára afmæli félagsins. Sú treyja seldist upp á nokkrum dögum en enginn vill sjá þessar nýju treyjur aðalliðsins.
En hvers vegna eru línurnar á nýrri treyju Atletico svona bognar? Til að votta Manzanares fljótinu virðingu.
Stjórnendur hafa ákveðið að héðan í frá mun félagið ráðfæra sig við stuðningsmenn áður en farið verður í framleiðslu á nýjum treyjum.