,,Verðum bara að vera menn til þess að viðurkenna að það var þannig í dag''
„Við mættum ekki grimmir, vorum eftir á í flestum aðgerðum og grófum okkur holu sem við komumst ekki upp úr. Leikurinn var í raun og veru búinn áður en hann byrjaði," sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, eftir tap gegn Víkingi í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld.
Lestu um leikinn: Breiðablik 0 - 3 Víkingur R.
„Auðvitað eru það vonbrigði en stundum er þetta bara svona, stundum ertu ekki besta útgáfan af sjálfum þér. Því miður var það raunin fyrstu 20 mínúturnar í dag og svo vorum við komnir í þá stöðu að holan var bara of djúp. Við náðum aldrei að setja nægilega pressu á Víkingana."
Víkingarnir pressuðu vel á Breiðablik í upphafi leiks. „Við vissum að þeir myndu koma hátt og hluti af því að bregðast við því er að vera á tánum fyrstu 15 mínúturnar. Þú þarft að vinna boltann sem dettur, fara vel með hann á varnarþriðjungi. Hvorugur þessa hluta gekk upp fyrstu 15-20 mínúturnar. Stundum er það bara svoleiðis að þú ert ólíkur sjálfum þér. Stundum eiga menn bara 'off' dag og við verðum bara að vera menn til þess að viðurkenna að það var þannig í dag."
Karl Friðleifur Gunnarsson, leikmaður Víkings, fagnaði fyrir framan varamannabekk Breiðabliks þegar hann skoraði annað mark Víkings. Karl er fyrrum leikmaður Breiðabliks, var á láni hjá Víkingi frá Breiðabliki í fyrra og var svo keyptur til Víkings síðasta vetur. Hann virtist vera senda Óskari einhver skilaboð í fagni sínu. Óskar segist þó ekki hafa fundið fyrir því.
„Ég tók bara ekki eftir því. Kalli verður bara að svara því, ég veit það ekki, hef alltaf kunnað vel við Karl Friðleif. Hann er öflugur fótboltamaður og fábær náungi," sagði Óskar.
Viðtalið við hans er talsvert lengra og má sjá það í heild sinni í spilaranum að ofan. Fögnuð Karls má sjá hér að neðan.
Það er svakaleikur á Kópavogsvellinum - Víkingur er búinn að skora tvö mörk og það eru bara rétt átta mínútur búnar af leiknum. Karl Friðleifur Gunnarsson skorar með föstu skoti pic.twitter.com/YUfeDcensl
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) August 31, 2022
Athugasemdir