Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 11. janúar 2012 12:30
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Liverpool og United: Rígur á óhjákvæmilegu undanhaldi?
Atli Ísleifsson skrifar
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Það er eitthvað að gerast í borginni. Maður er enn að melta bikarleik Manchester-liðanna sem fram fór um síðustu helgi. Scholes reimar á sig skóna á nýjan leik, rauða spjaldið, vítið, vítið eða vítin sem hefðu átt að vera, viðsnúningurinn í seinni hálfleik, dramatíkin, vonbrigðin, fögnuðurinn. Á síðustu árum hafa leikir liðanna tveggja nær allir verið virkilega skemmtilegir, dramatískir, eftirminnilegir með nóg af umdeildum atvikum. Það er eitthvað sérstakt að gerast í borginni Manchester.

Á haustmánuðum 2009 skorar Owen sigurmarkið á 96. mínútu leiksins í 4-3 sigri United. Í apríl 2010 skorar Scholes sigurmarkið með skalla í blálokin. Í febrúar 2011 skorar Rooney sigurmarkið með hjólhestaspyrnu. Í apríl 2011 skorar Yaya sigurmarkið, Scholes stimplar Zabaleta og City kemst í bikarúrslit. Í ágúst 2011 snúa kjúklingar Fergusons töpuðum leik í sigur í Samfélagsskildinum. Í október 2011 kjöldregur City granna sína á Old Trafford, 1-6. Svo leikurinn um síðustu helgi. Þættir Tevez og Hargreaves hafa svo bara verið til að krydda þetta. Það er eitthvað mjög sérstakt við þetta allt saman.

Ég tel að að óbreyttu munu sífellt færri stuðningsmenn United-liðsins tala um Liverpool sem „erkifjendur“ United-liðsins. (Vissulega eru margir Liverpool-menn sem líta á Everton sem „erkifjendurna“ og United-menn sem hafa alltaf litið á City sem „erkifjendurna“. Lítum samt framhjá því um stundarsakir.) Meðalaldur þeirra svo gera mun í það minnsta hækka. Munu yngri stuðningsmenn United – næsta kynslóð – ekki veita nágrönnunum í City þann „titil“ áður en langt um líður?

Þegar Alex Ferguson mætti á skrifstofu sína í Manchester á sínum fyrsta degi árið 1986 voru Liverpool kóngar enskrar knattspyrnu. Liverpool „the team to beat“ og Ferguson setti sér það markmið að „knock Liverpool off their perch“. Aldarfjórðungi síðar og með tólf Englandsmeistaratitla í safninu tókst honum loks ætlunarverkið.

Að koma Liverpool af þessum stalli hefur verið einkennandi og gegnumgangandi þáttur á stjóraferli Fergusons hjá Manchester United. Þótt ótrúlegt megi virðast þá mun tími Skotans í brúnni senn taka enda og nýr maður taka við stjórnartaumunum á Old Trafford. Það verður líklega ekki hjá því komist þó sumir vilji 26 ár til viðbótar.

Nýr stjóri mun koma að félagi og skrifstofu sem er mjög ólík þeirri sem Ferguson kom að 1986 (og þá er ég ekki að tala um ljósabekkinn sem Stóri-Ron geymdi þar inni). Nýr stjóri verður vart með sömu þráhyggju og „óvild“ í garð Liverpool og hefur runnið í æðum Fergusons í þetta langan tíma. Liverpool verður seint eitthvert aðalatriði.

Segjum sem svo að José Mourinho taki við United að loknu næsta tímabili þar sem City er nýbúið að vinna Englandsmeistaratitilinn. Það er erfitt að hugsa sér það að Mourinho (eða hver sem það nú verður) verði með sama fókus á Liverpool og fyrirrennarinn. Tímarnir eru breyttir. Þagga þarf niður í City og þeir ljósbláu verða „the team to beat“ fyrir nýju kónga enskrar knattspyrnu, þó að metnaðarfullur stjóri myndi að sjálfsögðu hafa það að markmiði að fyrst jafna og svo taka fram úr Liverpool í fjölda Evrópumeistaratitla. Þeir leikir sem beðið verður eftir með mestri eftirvæntingu fyrir hvert tímabil verða leikirnir gegn City – ekki leikirnir gegn Liverpool.

Skapist sæmileg sátt um arftaka Fergusons munu stuðningsmennirnir – þessi oft á tíðum heilalausa hjörð (það á við stuðningsmenn allra liða!) – taka undir með stjóranum og smám saman beina sjónum sínum, bæði í orði og borði, að ljósbláa hluta borgarinnar. Ekki yfir á Merseyside. Með aukinni velgengni, áframhaldandi fjárstreymi (þeir ættu að vera góðir a.m.k. fram yfir HM 2022), góðri markaðssetningu og með snillinga og karaktera líkt og Yaya Toure, David Silva og Mario Balotelli innanborðs mun stuðningsmannahópur City óhjákvæmilega stækka. Stuðningur við fótboltalið erfist oft á tíðum – það má jafnvel tala um sjálfbærni í því samhengi – en það breytir því ekki að til verður fjölmennari hópur stuðningsmanna City, í það minnsta meðal fólks fætt í kringum aldamótin sem mun svo eldast og verða virkir þátttakendur í umræðunni og á vellinum.

Það sama og nefnt hefur verið um fókus Fergusons á Liverpool, má heimfæra upp á leikmannahóp United. Þó Giggs og nú Scholes séu enn í fullu fjöri þá fer þeim „hreinræktuðu“, enn spilandi leikmönnum United fækkandi sem upplifðu þá tíma sjálfir þegar Liverpool var langbesta liðið á Englandi og litu á þá sem „óvin númer eitt“ allt frá því að þeir byrjuðu í boltanum. Eftir standa leikmenn sem hafa ekki kynnst Liverpool öðruvísi en liði sem berst um 2.-7. Sætið. Ekki í raunverulegri baráttu um Englandsmeistaratitilinn sjálfan þó að bikartitlar og einn Meistaradeildartitill hafi vissulega ratað til þeirra. Rooney segist „hata“ liðið en Gary Neville er ekki lengur í klefanum til að prédika yfir mannskapnum um óæðri eiginleika þessa félags.

Vera má að það sé vitleysa að spá fyrir um að rígurinn milli United og Liverpool muni minnka á komandi árum, svona strax í kjölfar Suarez-málsins. Rígur milli liðanna tveggja verður alltaf til staðar. „Hættan“ er samt sú að stuðningsmenn United beini í auknum mæli sjónum sínum að City og leggi sífellt minni rækt við að svara pillum Liverpool-manna. Eins og maður man vel eftir síðustu leikjum United og City þá er eitthvað minna sem situr eftir eftir síðustu leiki Liverpool og United. Gerrard að kyssa einhverjar sjónvarpslinsur, Dossena skorar 4-1, Torres vs Vidic, og jú, sigurmarkið hans O‘Shea fyrir framan Kop-stúkuna. Það breytir því ekki að mér finnst eitthvað vera í loftinu. Ég mun alveg setjast niður þegar Evra leiðir United-liðið inn á Anfield í lok mánaðar. Sjálfur bíð ég þó spenntari eftir leik City og United á Etihad 28. apríl, en þeim deildar- og bikarleikjum Liverpool og United sem framundan eru. Það er af sem áður var.

Atli Ísleifsson (stuðningsmaður Man. Utd.)
banner
banner
banner
banner