Simons orðaður við Man Utd - Calafiori færist nær Arsenal - West Ham hefur áhuga á Tomori
   mið 30. mars 2011 07:00
Sigmundur Ó. Steinarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
„Drengirnir okkar“ færa okkur sumarauka!
Sigmundur Ó. Steinarsson
Sigmundur Ó. Steinarsson
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
LEIKMENN íslenska ungmennalandsliðsins, skipað leikmönnum undir 21 árs aldri, glöddu hjarta Íslendinga með stórgóðum sigri á Englendingum í vináttuleik í Preston, 2:1. Íslendingar bíða nú spenntir eftir „sumaraukanum“ - að fylgjast með drengjunum í úrslitakeppni Evrópukeppni ungmennalandsliða, sem fer fram í Danmörku í júní.

Það er ljóst að kynslóðaskipti er framundan hjá íslenska A-landsliðinu - drengirnir í ungmennaliðinu eiga framtíðina fyrir sér og á þeim mun landslið Íslands vera byggt á næstu árum. Það sást í leik Íslands gegn Kýpur í Evrópukeppni landsliða á laugardaginn, að það þarf að gera miklar breytingar í öftustu vörn liðsins, ef landsliðið á að ná framförum og bæta árangur sinn. Flestir varnarmennirnir eru af gamla skólanum - þeir eiga erfitt með og hafa ekki getu til að leika knettinum manna á milli og byggja upp leik liðsins frá öftustu vörn. Það er óþolandi að sjá þegar atvinnuknattspyrnumenn setja undir sig höfuðið og spyrna knettinum eins langt fram völlinn og þeir geta - án þess að hugsa um samleik. Já, og fá knöttinn strax til baka, eins og um borðtennisleik væri að ræða.

Þetta er gömul saga og ný hjá landsliðinu, en það urðu nokkrar breytingar á þegar Ásgeir Elíasson tók við landsliðinu um árið og setti miðvallarleikmanninn Pétur Ormslev sem miðvörð, til að leika knettinum fram. Við hlið hans lék Guðni Bergsson og bakverðir voru léttleikandi boltamenn og sókndjarfir. Það er ljóst að það verður að reyna þá lausn aftur - að finna út góða miðjumenn eða jafnvel sóknarleikmenn, til að færa aftur. Ekki er um auðugan garð að gresja, því að höfuðverkur landsliðsins er að það vantar illilega mann á miðjuna til að halda knettinum og byggja upp spil, eins og Rúnar Kristinsson tókst oft ágætlega.

Eiður Smári Guðjohnsen hefði getað orðið góður í því hlutverki, en því miður hefur skapgerð hans ekki fallið inn í liðsheild, til að styrkja hana.

Þegar kynslóðaskipti varð hjá landsliðinu 1959 og „gulldrengir“ KR, Þórólfur Beck, 19 ára, og Örn Steinsen, 21 árs, ásamt félögum þeirra úr KR Heimi Guðjónssyni, markverði, Garðari Árnasyni, Sveini Jónssyni og Rúnari Guðmannssyni úr Fram byrjuðu að leika með landsliðinu, með gömlu refunum frá Akranesi - sjálfum kónginum Ríkharði Jónssyni og Sveini Teitssyni, var landsliðið ekki langt frá því að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í Róm 1960.

Landsliðið, sem var byggt upp á öflugu KR-liði, lagði Norðmenn að velli í undankeppni ÓL, 1:0, og gerði síðan ógleymanlegt jafntefli við Dani í Kaupmannahöfn, þar sem Danir náðu að jafna, 1:1. Þá gekk geysilega vinsælt knattspyrnulandsliðið undir nafninu „Drengirnir okkar“ hjá Íslendingum - eða um 26 árum áður en nafnið „Strákarnir okkar“ festist á landsliðið í handknattleik.

„Drengirnir okkar“ skemmtu Íslendingum á þessum árum og fjölmenntu áhorfendur á völlinn, en þeir sem voru til sjávar og sveita, fylgdust með lýsingum Sigurðar Sigurðssonar á RÚV.

Þá var stemningin geysileg í kringum "Drengina okkar" og ég hef trú á því að hún verði það einnig í sumar, þegar umgmennalandsliðið fer á ferðina á EM í Danmörku og bíður landsmönnum upp á „Sumarauka.“

Í kjölfarið á Evrópukeppninni í Danmörku er kominn tími tið að gera róttækar breytingar á vörn íslenska A-landsliðsins!
banner
banner
banner