Leikmaður 2. umferðar - Arnar Aðalgeirsson (Haukar)
„Ég var mjög sáttur með sjálfan mig og liðið eftir leikinn. Ég var auðvitað glaður að ná að skora tvö mörk," sagði Arnar Aðalgeirsson, leikmaður Hauka sem skoraði tvívegis í 4-1 sigri á KA í 2. umferð Inkasso-deildarinnar.
Arnar Aðalgeirsson er leikmaður umferðarinnar að mati Fótbolta.net og fær gjafabréf á Verbúðin 11 Lobster and stuff.
Arnar Aðalgeirsson er leikmaður umferðarinnar að mati Fótbolta.net og fær gjafabréf á Verbúðin 11 Lobster and stuff.
„Við vissum að þetta yrði hörkuleikur og hann var það svo sannarlega. Við náðum að brjóta ísinn eftir 65 mínútna leik og eftir það gengum við á lagið og nýttum færin okkar mjög vel og náðum góðri forystu á stuttum tíma," sagði Arnar sem Haukar skoruðu þrjú mörk á innan við tíu mínútna kafla og gerðum útum leikinn.
„Mér fannst spilamennskan mjög góð mest megnis af leiknum. Einbeiting og viljinn að klára verkefnið var til staðar allan tímann," sagði Arnar en sigur Hauka kom mörgum á óvart. Þá sérstaklega, eftir tap liðsins í 1. umferðinni gegn Grindavík þar sem Haukaliðið var ekki sannfærandi.
„Í leiknum á móti Grindavík klikkuðum við á ýmsum grundvallaratriðum og notuðum vikuna í að fínpússa hlutina fyrir næsta verkefni. Mér fannst vörnin í heild sinni vera betri og skipulagðari og tel það vera ástæðan fyrir sigrinum á móti KA," sagði Arnar sem segir sigurinn hafa verið mikilvægan upp á framhaldið.
„Þetta var góður sigur á móti sterku KA liði. Það má samt ekki gleyma því að þessi sigur gefur okkur aðeins þrjú stig og sumarið er nýbyrjað þannig einbeitingin okkar er bara á næsta verkefni sem er Fram á útivelli."
Haukaliðið hefur skorað sex mörk í fyrstu tveimur leikjunum, flest mörk allra liða í Inkasso-deildinni. Margir höfðu efasemdir með markaskorun Hauka í sumar, eftir að markahæsti leikmaður deildarinnar í fyrra, Björgvin Stefánsson var lánaður til Vals frá Haukum innan við viku fyrir mót.
„Björgvin var auðvitað frábær á síðasta tímabili og hjálpaði okkur mikið með að skora flest mörkin. Ég tel að það verða fleiri leikmenn sem skora mörkin í sumar og nú þegar eru fimm menn búnir að opna markareikninginn í deildinni."
Að lokum var Arnar spurður út í markmið Hauka í sumar.
„Við erum ekki mikið að pæla í langtímamarkmiðum. Við tökum einn leik í einu og lögum það sem þarf að laga fyrir hvern leik og sjáum hvert það leiðir okkur," sagði leikmaður 2. umferðar í Inkasso-deildinni, Arnar Aðalgeirsson að lokum.
Sjá einnig:
Bestur í 1. umferð - Stefán Ómar Magnússon (Huginn)
Athugasemdir