fös 10. ágúst 2018 12:00
Magnús Már Einarsson
Kjartan Atli spáir í leiki helgarinnar á Englandi
Kjartan Atli Kjartansson.
Kjartan Atli Kjartansson.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Manchester United byrjar á sigri í kvöld samkvæmt spá Kjartans.
Manchester United byrjar á sigri í kvöld samkvæmt spá Kjartans.
Mynd: Getty Images
Enska úrvalsdeildin hefst í kvöld þegar Manchester United fær Leicester í heimsókn.

Fótbolti.net fær á hverju tímabili álitsgjafa til að spá í hverja umferð í deildinni. Kjartan Atli Kjartansson, útvarps og sjónvarpsmaður, var efstur á síðasta tímabili en hann var með átta leiki rétta í umferðinni sem hann spáði í.

Kjartan ríður á vaðið á þessu tímabili og spáir í leiki helgarinnar. Kjartan er þessa dagana að undirbúa sig fyrir Reykjavíkurmaraþonið en þar hleypur hann til styrktar MND félaginu á Íslandi.



Manchester United 2 - 0 Leicester (19:00 í kvöld
United byrjar á fullu gasi. Erfiður gluggi en mannskapurinn er nógu góður til að keppa við City. Annað er afsökun.

Newcastle 1 - 2 Tottenham (11:30 á morgun)
Að halda hópnum í horfinu getur verið styrkleiki fyrir Tottenham. Kane heldur áfram að spila eins og kóngur. Rafa Benitez búinn að kaupa í tilboðshillunni á markaðnum en samt gert vel.

Bournemouth 1 - 0 Cardiff (14:00 á morgun)
Eddie Howe er algjör snillingur, reyndar Warnock líka. En ég held að þetta verði erfiður leikur fyrir Aron Einar og félaga.

Fulham 1 - 1 Crystal Palace (14:00 á morgun)
Fulham-menn koma spólgraðir upp í úrvalsdeildina og láta nágranna sína hafa fyrir hlutunum. Tvö skemmtileg lið.

Huddersfield 0 - 2 Chelsea (14:00 á morgun)
Skyldusigur fyrir Chelsea, með fullri virðingu fyrir þeim fjölmörgu stuðningsmönnum Huddersfield á Íslandi. Hazard verður í toppformi og setur tvennu.

Watford 0 - 0 Brighton (14:00 á morgun)
Eina markalausa jafntefli fyrstu umferðarinnar. Erfitt að spá fyrir um þennan. Viðurkenni það.

Wolves 2 - 3 Everton (16:30 á morgun)
Tökum einhverja bilun á þetta. Segjum að þetta verði markaleikurinn. Þetta er leikur sem maður þarf að sjá. Bæði lið gerðu vel í glugganum og gæti verið smá vesen að púsla saman góðum varnarleik í fyrsta leik.

Liverpool 3 - 1 West Ham (12:30 á sunnudag)
Tvö félög sem hafa einnig gert geggjaða hluti í glugganum. Ég held að Liverpool komi alveg á blússandi siglingu inn í tímabilið. Þeir líta vel út, eftir frábært undirbúningstímabil.

Southampton 0 - 1 Burnley (12:30 á sunnudag)
Burnley heldur áfram góðu gengi frá því í fyrra. Jóhann Berg Guðmundsson skorar, enda toppmaður.

Arsenal 2 - 4 Man City (15:00 á sunnudag)
Því miður verður City-liðið áfram jafn gott og vel spilandi, að manni finnst. Arsenal lítur skemmtilega út og alltaf gaman þegar nýir tímar hefjast hjá gamalgrónum félögum. En þetta er erfið byrjun fyrir Skytturnar, City-liðið er einfaldlega það sterkt.
Athugasemdir
banner