mið 05. júní 2019 09:49
Elvar Geir Magnússon
Eriksen vill fara frá Tottenham - „Ég vil prófa eitthvað nýtt"
Christian Eriksen.
Christian Eriksen.
Mynd: Getty Images
Christian Eriksen, leikmaður Tottenham, hefur staðfest að hann vilji fara frá Tottenham. Þessi 27 ára danski miðjumaður hefur verið hjá Spurs síðan 2013 en hann á eitt ár eftir af samningi sínum.

Hann hefur ekki sýnt áhuga á að framlengja þeim samningi.

Eriksen er á hátindi ferils síns og eru miklar líkur á því að Tottenham neyðist til að selja hann í sumar. Real Madrid er sagt meðal áhugasamra félaga.

„Mér finnst ég vera á þeim stað á ferlinum að ég þurfi að prófa eitthvað nýtt. Ég bera alla virðingu fyrir því sem er að gerast hjá Tottenham og það yrði ekki neikvætt að vera áfram, en ég vil gera eitthvað nýtt," segir Eriksen í viðtali við Ekstra Bladet.

„Ég vona að það gerist eitthvað í sumar. Það er áætlunin. Fótboltinn er óútreiknanlegur og hlutirnir geta tekið tíma. Það væri þó best ef þetta myndi ráðast sem fyrst."

Zinedine Zidane er að endurnýja lið Real Madrid og er sagður vilja fá Eriksen.

„Það yrði skref upp að fara til Real en félagið þyrfti þá að taka upp símann og segja Tottenham að það vilji fá mig. Það hefur ekki verið gert svo ég viti," segir Eriksen.
Athugasemdir
banner
banner
banner