Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 17. maí 2007 08:00
Hafliði Breiðfjörð
Viðtal við enskan stuðningsmann ÍA sem kom til Íslands
Mike Morgan á leiknum gegn FH á laugardag en hann skartar hér húfu með merki ÍA.
Mike Morgan á leiknum gegn FH á laugardag en hann skartar hér húfu með merki ÍA.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Skagamenn fagna marki í leiknum gegn FH á laugardag.
Skagamenn fagna marki í leiknum gegn FH á laugardag.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Björn Bergmann Sigurðarson leikmaður ÍA í leiknum á laugardag.
Björn Bergmann Sigurðarson leikmaður ÍA í leiknum á laugardag.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Michael Morgan sem er enskur stuðningsmaður ÍA kom hingað til lands í fyrsta sinn um síðastliðna helgi og var heiðursgestur á leik liðsins gegn Íslandsmeisturum FH í fyrstu umferð Landsbankadeildarinnar á laugardag. Hann segir í viðtali við Fótbolta.net í dag að sér hafi þótt mjög gott að sjá liðið loksins eftir að hafa stutt það í rúm tíu ár.

Michael Morgan
Michael Morgan er 33 ára gamall rafvirki sem býr í smábænum Birkenhead sem er nærri Liverpool á Englandi. Auk þess að styðja ÍA styður hann Tranmere Rovers sem spilar í ensku 2. deildinni. Hann hefur fylgst með íslenskum fótbolta undanfarin 16 ár og stutt ÍA í rúmlega 10 ár eða síðan hann sá fjallað um liðið í sjónvarpsþættinum Futbol Mundial..
Michael kom hingað til lands í boði ÍA en hann hefur vakið athygli undanfarin ár fyrir að styðja Akranes liðið þrátt fyrir að hafa aldrei séð liðið spila. Hann heldur utan um vefsíðu um félagið á slóðinni, Freewebs.com/iauk.

,,Gísli Gíslason formaður ÍA bauð mér hingað og Sigþór Eiríksson og Hjálmur Geir Hjálmsson skipulögðu ferðina," sagði Michael í samtali við Fótbolta.net. ,,Af góðmennsku sinni greiddi félagið fyrir flugið og leigði fyrir mig íbúð þessa helgina og vildi þannig þakka mér fyrir vefsíðuna mína," bætti hann við.

Smábærinn sem Michael býr í á Englandi heitir Birkenhead en þar búa þó um 280 þúsund manns. Á Akranesi búa hinsvegar aðeins um 6 þúsund manns en Michel líkaði vel við bæinn.

,,Mér fannst þetta mjög huggulegur staður, mjög frábrugðinn því sem ég er vanur," sagði Mike um Akranesbæ. ,,Þetta var bara smábær en hafði þó allt sem maður þarf: verslanir, sjúkrahús, íþróttasafn, framhaldsskóla og svo framvegis. Mér leist mjög vel á Akraneshöllina. Ég fór líka og sá aðra fótboltavelli (Fylkir, FH, Breiðablik/HK, Keflavík) en mér fannst ÍA hafa bestu aðstöðuna."

Þetta var í fyrsta sinn sem Mike sér ÍA liðið spila með berum augum en áður hafði hann aðeins séð liðið í sjónvarpi. ,,Já það var mjög gaman að sjá liðið spila loksins," sagði Mike.

,,Þetta var mjög góður leikur að horfa á. Ég hélt að eftir að hafa verið komnir niður í tíu menn á vellinum gegn meisturunum og 2-0 undir myndi þetta enda 4-0 eða 5-0 fyrir FH. En ÍA börðust vel og mér fannst sem þeir hafi kannski verið óheppnir að jafna ekki í lokin."

Skagamenn hafa orðið fyrir mikilli blóðtöku fyrir þessa leiktíð og misst sjö sterka leikmenn frá þeirri síðustu en ekki styrkt liðið ennþá. Því hefur liðið verið neðarlega í spám sérfræðinga fyrir leiktíðina og Mike á von á að liðið endi um miðja deild.

,,ÍA endar um miðja deild þetta árið, það eru margir mjög ungir leikmenn í hópnum en leikmenn eins og Þórður og Bjarni Guðjónssynir verða að hjálpa þeim. Ef ungu strákarnir næla sér í reynslu þá munum við sjá herna mjög gott lið eftir nokkur ár."

Á sunnudaginn fór Michael svo til Reykjavíkur þar sem hann sá leik Vals og Fram á Laugardalsvelli en í leiknum léku nokkrir fyrrum leikmenn ÍA. Það voru þeir Reynir Leósson og Igor Pesic í liði Fram auk Ólafs Þórðarsonar þjálfara og Hafþór Ægir Vilhjálmsson og Baldur Ingimar Aðalsteinsson hjá Val.

,,Þetta var meira heimsókn til að sjá Laugardalsvöll heldur en að sjá leikinn, nýju flottu stúkuna. Hvað varðar leikinn þá naut ég hans og það voru margir fyrrum leikmenn ÍA sem áttu þátt í leiknum."

Að lokum var ekki úr vegi að spyrja Michael spurningarinnar sem allir gestir til okkar lands fá þegar þeir koma hingað. Hvernig líkaði þér dvölin á Íslandi?

,,Ég naut dvalarinnar á Íslandi mikið, allt fókið sem ég hitti var mjög vingjarnlegt. Ég hitti marga, Ríkharð Jónsson, Loga Ólafsson, Jón Gunnlaugsson, Harald Sturlaugsson, Geir Þorsteinsson... Ég verð að skila þökkum til Hjálms Geirs Hjálmssonar, hann sótti mig á flugvöllinn og skilaði mér þangað aftur, fór með mig um Reykjavík og bauð mér heim til sín. Góður vinur. Ég held að ég muni koma aftur, fjölskylda mín vill koma með næst."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner